Nemendum ber að mæta stundvíslega til prófs. Þeim ber að kynna sér vel próftöflu og skipan í stofur.

Komi nemandi of seint til prófs skal hann ganga hljóðlega til sætis. Nemandi sem kemur of seint fær ekki framlengingu á próftíma.

Skólinn leggur nemendum til pappír en nemendur skulu gæta þess að hafa með sér skriffæri. Við skrifleg próf má nota þau gögn ein sem eru leyfileg og tilgreind á verkefnablaði. Óheimilt er að hafa GSM síma, skólatöskur, bækur og gögn önnur en þau sem ofan greinir með inn í prófstofuna. Pennaveski á að geyma á gólfi við prófborð.

Óheimilt er að yfirgefa prófstað fyrr en eftir 30 mínútur. Að loknu prófi eiga nemendur að yfirgefa skólann. Brýnt er að fara hljóðlega.

Þurfi nemandi að fara fram áður en hann hefur skilað úrlausn er það einungis heimilt ef honum er fylgt.

Nemandi, sem staðinn er að því að nota óleyfileg gögn eða veita eða þiggja hjálp við próf umfram það sem heimilað er (svindla á prófi) hefur fyrirgert rétti til frekari þátttöku í prófum á önninni. Honum er vísað úr skóla, tímabundið eða til frambúðar. Ekki eru gefnar einkunnir fyrir áfanga annarinnar.

Nemandi, sem kemur ekki til prófs og hefur ekki fengið heimild til að hætta námi í viðkomandi áfanga, telst hafa gert tilraun til að þreyta prófið. Skal hann gera aðstoðarskólameistara grein fyrir málum sínum. (Sjá nánar reglur um skráningu í og úr áfanga).

Um veikindi í prófum og sjúkrapróf

Nemendur skulu tilkynna aðstoðarskólameistara um veikindi sín áður en próf hefjast dag hvern. Nemandi, sem er veikur í prófi, skal skila læknisvottorði til aðstoðarskólameistara jafnskjótt og veikindum lýkur.

Veikist nemandi í prófi ber honum að vekja athygli kennara í yfirsetu sem skrifar athugasemd um það á prófúrlausn nemandans. Skal læknisvottorði dagsettu samdægurs skilað til aðstoðarskólameistara.

Sjúkrapróf eru haldin að loknum reglulegum prófum. Nemendur sem skila læknisvottorði teljast þar með skráðir í sjúkrapróf.

Birting einkunna

Einkunnir eru einungis birtar á Innu. Fyrstu einkunnir eru að jafnaði birtar síðasta reglulega prófdag og jafnskjótt og þær berast eftir það. Kennarar gefa ekki upplýsingar um lokaeinkunnir.

Að prófum loknum eiga nemendur þess kost að skoða prófúrlausnir sínar í viðurvist kennara. Eftir haustönn eru prófsýningar fyrsta kennsludag eða í fyrstu kennslustund. Á vorönn er auglýstur prófsýningadagur þegar allar einkunnir hafa borist (áður en endurtökupróf hefjast). Ef fram kemur skekkja í mati eða einkunnagjöf skal slíkt leiðrétt strax.

Ágreiningur um námsmat

Nemendur eiga rétt á að fá útskýringar á mati sem liggur að baki lokaeinkunn í námsáfanga innan fimm virkra daga frá birtingu einkunnar. Vilji nemendur, sem ekki hafa náð lágmarkseinkunn, þá eigi una mati kennarans geta þeir snúið sér til skólameistara og óskað eftir mati sérstaks prófdómara. Þá skal kveða til óvilhallan prófdómara sem metur prófúrlausnir. Úrskurður hans er endanlegur.

Um lokapróf

Ef lokapróf gildir 50% eða meira af lokaeinkunn áfanga þurfa nemendur að ná lágmarkseinkunninni 4,5 á lokaprófinu til þess að aðrir námsmatsþættir gildi til einkunnar. Lokapróf geta verið bæði skrifleg og munnleg. Kennurum er heimilt að víkja frá þessari reglu en það þarf þá að koma skýrt fram í námsáætlun áfangans.

Um skil á verkefnum

Allir nemendur eiga að skila verkefnum, skriflegum og munnlegum, á skiladegi nema um annað hafi verið samið við kennara, veikindi tilkynnt og vottorði skilað eða leyfi fengið vegna sérstakra aðstæðna.

Deildir setja reglur um skil á verkefnum. Þær þurfa að koma fram á námsáætlun og þarf að kynna vel í upphafi annar.

Kennarar skulu skila verkefnum til baka eins fljótt og auðið er.

Um misferli í verkefnum sem gilda til lokaeinkunnar

Óheimilt er að láta aðra vinna ritgerðir og verkefni fyrir sig. Ef nemandi notar texta, myndir eða annað efni frá öðrum í verk sín, gerir ekki grein fyrir uppruna efnisins og skilja má að efnið sé höfundarverk nemanda verður litið á slíkt sem ritstuld. Slíkt jafngildir prófsvindli.

Heimilt er að leyfa nemanda sem á áðurgreindan hátt hefur fyrirgert verkefni sínu að endurvinna það eða endurtaka að vori með endurtekningaprófum.

Öll brot á prófreglum og reglum þeim sem að ofan greinir skulu tilkynnt prófstjóra/aðstoðarskólameistara sem heldur skrá um slíka atburði.

Um endurtökupróf

Ef nemandi fellur í áfanga og tekur endurtökupróf í viðkomandi áfanga á sama skólaári, gildir símat eða verkefni annarinnar nema annað sé tekið fram í námsáætlun.

Ef nemandi tekur endurtökuprófið síðar (ekki á sama skólaári), getur nemandi einnig þurft að endurtaka aðra námsmatsþætti. Ef lokaprófið gildir minna en 50% gilda reglur um endurtöku í símatsáföngum.

Um endurtöku og verkefnaskil í símatsáföngum

Nemendur eiga að jafnaði ekki rétt á endurtöku í símatsáföngum.

Ef nemandi hefur reynt við flest verkefni áfangans getur hann sótt um að fá að gangast undir námsmat sem ígildi endurtöku. Kennari vegur og metur í hverju endurtakan verður fólgin, prófi og/eða verkefni í samráði við aðstoðarskólameistara.

Kennurum er heimilt að setja sérstakar reglur um lágmarksskilaskyldu verkefna í símatsáföngum, þ.e. að skili nemandi ekki ákveðnu hlutfalli af verkefnum áfangans geti það þýtt að nemandinn falli í áfanganum.

Nemandi sem lýkur önninni á rétt á því að fá lokaeinkunn úr áfanganum jafnvel þó hann hafi ekki lokið öllum námsmatsþáttum. Fall á verkefnahluta kemur ekki í veg fyrir að nemandi fái að taka lokapróf.

Skráning í endurtökupróf

Nemendur þurfa að skrá sig í endurtökupróf á skrifstofu skólans (afgreidsla@ma.is). Nemendur sem eiga möguleika á að vinna upp fall frá haustönn skrá sig ekki í endurtökupróf fyrr en einkunnir úr vorannarprófinu hafa birst. Upplýsingar um rétt til endurtökuprófa og skilyrði varðandi námsframvindu, sjá Um námsframvindu.