- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri leggur ríka áherslu á að nemendur skólans tileinki sér heilbrigðan lífsstíl, jákvætt viðhorf og mannbætandi tómstundir er efla félagsþroska þeirra. Skólinn vill gera nemendum kleift að styrkja sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu með það að markmiði að auka færni þeirra í lífsleikni og sporna gegn allri sjálfseyðandi hegðun. Veigamikill þáttur í þessari viðleitni er sú stefna að freista þess að seinka eftir megni eða koma í veg fyrir að nemendur hefji neyslu á áfengi, tóbaki eða öðrum vímuefnum, ennfremur að aðstoða þá sem þegar hafa ánetjast vímuefnum. Það er stefna skólans að hvetja til heilbrigðs lífernis án vímuefna og í skólanum gilda skýrar reglur um bindindi og á viðburðum sem skólafélagið Huginn sér um.
Einn liður í forvörnum í skólanum er umsjónarstarf með ólögráða nemendum, en allir bekkir á fyrsta og öðru ári hafa sinn umsjónarkennara. Meginmarkmiðið er að tryggja sem best velferð nemenda í skólanum og minnka líkur á brotthvarfi frá námi. Það er gert með því að stuðla að góðum bekkjaranda, fylgjast með líðan nemenda, árangri og ástundun og upplýsa forráðafólk um stöðu nemenda. Umsjónarkennarar funda reglulega með stoðteymi skólans. Allir nemendur fá miðannarmat í flestum greinum um miðja haust- og vorönn. Matið er eingöngu hugsað sem vísbending um stöðu nemenda, hvatning til þeirra sem standa sig vel og ábending til þeirra sem þurfa að bæta sig. Tilgangurinn er að geta gripið þá nemendur tímanlega sem standa höllum fæti í námi til að geta veitt þeim viðeigandi aðstoð.
Annar liður í forvarnarstarfi skólans er áfanginn Nýnemafræðsla og forvarnir. Nemendur í fyrsta bekk hafa eina kennslustund á viku í áfanganum. Viðfangsefnin eru fjölmörg og má þar nefna tímastjórnun, skipulögð vinnubrögð, hvernig námsmaður er ég?, próftækni, kynningu á mikilvægi svefns, kynning á HAM, vinna í tengslum við forvarnadaginn, kennsla í núvitund og geðfræðslu, seigluþjálfun og slökun. Einnig er fræðsla frá ofbeldisforvarnarskólanum sem skólasálfræðingur sér um auk þess sem reglulega er fengin utanaðkomandi forvarnarfræðsla um ýmis mál.
Forvarnateymi skólans skipa: Náms- og starfsráðgjafar skólans og sálfræðingur skólans.