Við Menntaskólann á Akureyri er í boði hraðlína, þar sem teknir eru inn nemendur sem lokið hafa 9. bekk grunnskóla.  Með þessu ná góðir nemendur að takast á við krefjandi verkefni og flýta námi sínu til stúdentsprófs um eitt ár.

Umsóknarfrestur 2024 er til 25. maí.

Umsóknargögn fyrir skólaárið 2024-2025

Skilyrði til inntöku á hraðlínu almennrar bóknámsbrautar:

  • Nemandinn hafi hlotið  B+ í einkunn í níunda bekk grunnskóla.
  • Umsögn frá grunnskóla um námslega stöðu umsækjandans og mat skólans á því hvort þetta val telst vera raunhæfur kostur fyrir hann.
  • Bréf frá umsækjanda þar sem hann gerir grein fyrir hvers vegna hann sækir um þetta nám og af hverju hann telur sig undir það búinn.
  • Viðtal við foreldra og nemendur.
  • Fjöldi nemenda á hraðlínu er takmarkaður og skólinn mun velja þá sem hann telur hæfasta hverju sinni.

Skólanum er heimilt að taka mið af fleiri gögnum en lokaeinkunnum úr grunnskóla og eru umsækjendur hvattir til að senda með umsókn sinni þau viðbótargögn sem þeir telja að gefi betri mynd af þeim í lífi og starfi. Sem dæmi má nefna staðfestar upplýsingar um þátttöku og árangur í félagsstarfi, öðru námi, keppnum af ýmsu tagi í íþróttum, listum, tungumálum eða raungreinum og niðurstöður samræmdra könnunarprófa.

Kennsluhættir:

Fjölbreyttar kennsluaðferðir eru notaðar og leitast við að haga þeim þannig að námið verði annars vegar fjölbreytilegt og áhugavert og hins vegar krefjandi fyrir alla nemendur. Námsmat er einnig fjölbreytt, mikið símat er yfir önnina en einnig eru lokapróf í hluta áfanga. 

Foreldrasamstarf:

Allir bekkir á 1. og 2. ári hafa umsjónarkennara. Kynningarfundur fyrir foreldra er haldinn að lokinni skólasetningu og þar gefst foreldrum tækifæri til að hitta umsjónarkennara. Áhersla er lögð á örugga móttöku nemenda, stuðlað að góðum félagatengslum og samstöðu í hópnum.

Námsframvinda:

Sömu reglur gilda í meginatriðum um framvindu náms á hraðlínu og annarra nemenda á fyrsta ári. Nemandi þarf að standast alla undanfara til að geta hafið nám á öðru ári við MA.