Loftmynd Þórgnýs Dýrfjörð af skólalóðinniMenntaskólinn á Akureyri

Menntaskólinn á Akureyri er bóknámsskóli sem byggir á fornri hefð en leitast við að vera í fremstu röð framhaldsskóla á Íslandi. Stúdentar úr MA eiga að vera gjaldgengir í hvaða háskólanám sem er hvar sem er í veröldinni. Árangur þeirra hefur sýnt að skólinn stendur undir væntingum.

Hluti af hefð MA er afar öflugt félagsstarf, sem stýrt er og skipulagt af nemendum sjálfum. Metnaðarfullt og heilbrigt félagsstarf er ásamt traustu bóknámi gott veganesti á lífsins braut.

Nemendur skólans eru rúmlega 700 og koma víða að og drjúgur hluti þeirra býr á heimavist, sem nú er sjálfseignarstofnun og þjónar nemendum beggja framhaldsskólanna á Akureyri, MA og VMA.

Í skólanum eru í gildi tvær námskrár. Önnur tók gildi árið 2010 og munu síðustu nemendur útskrifast samkvæmt henni vorið 2019.

Í nýrri námskrá eru fjórar námsbrautir: mála- og menningarbraut, félagsgreinabraut, náttúrufræðibraut og raungreinabraut. Brautirnar miðast allar við 200 einingar og við innritun er miðað við að nemendur útskrifist þremur árum síðar, en þeim gefst hins vegar kostur á að fresta námslokum svo námstími þeirra sé þrjú og hálft eða fjögur ár. Fyrst var innritað eftir þessu kerfi haustið 2016 og munu fyrstu nemendur útskrifast samkvæmt því vorið 2019.

Hér á vefnum eru helstu upplýsingar um skólann og starf hans. Frekari upplýsingar má fá með því að senda tölvupóst á netfangið ma@ma.is eða skoða kynningarbæklinginn. Sjá enn fremur á síðunni Viltu kynnast MA.

Einkunnarorð Menntaskólans eru virðing - víðsýni - árangur: að sýna starfi, umhverfi og fólki virðingu, vinna gegn fordómum og efla gagnrýna hugsun, leggja sig allan fram og gera eins vel og unnt er.

Myndin hér var tekin vorið 2009. Myndasmiður: Þórgnýr Dýrfjörð, fyrrum nemandi og kennari við MA.