Jafnréttisráð MA

Jafnréttisfulltrúi:

Bjarni Jónasson, bjarnij@ma.is. Hólmfríður Jóhannsdóttir, holmfridurj@ma.is (í leyfi 2021-2022).

Fulltrúar starfsfólks:
Alma Oddgeirsdóttir, alma@ma.is

Fulltrúar nemenda (breytilegt eftir skólaárum)

 

Jafnréttisstefna

Í Menntaskólanum á Akureyri er lögð áhersla á jafnrétti. Jafnréttisstefna skólans byggir á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna nr. 10/2008. Jafnrétti, sem einn af grunnþáttum aðalnámskrár, á að endurspeglast í starfsháttum skólans, samskiptum og skólabrag. Jafnrétti skal vera sýnilegt í öllu skólastarfinu, bæði innan kennslustunda og utan þeirra. Markmið jafnréttisstefnunnar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum allra sem starfa í skólanum; starfsfólks og nemenda. Jafnréttisáætlun skólans, sem er í gildi frá 2017-2020, er því tvíþætt. Hún snýr annars vegar að starfsfólkinu/vinnustaðnum og hins vegar að nemendum/menntastofnuninni. Sé áætlun fylgt eiga allir einstaklingar að eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína.

Markvisst er unnið að því að gæta jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum skólans, m.a. með því að hafa fulltrúa allra kynja í vinnuhópum og nefndum innan skólans.  Nauðsynlegt er að bjóða hvort tveggja nemendum og starfsfólki skólans fræðslu um jafnréttismál. Jafnréttisstefna skólans er tól til að beina starfsfólki og skólastarfinu öllu í átt að jafnrétti. Markmiðið er að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk karla og kvenna. Enn fremur er lögð áhersla á að hugtakið jafnrétti sé túlkað í breiðum skilningi. Með því er átt við að Menntaskólinn á Akureyri stuðli að jöfnun rétti og jöfnum tækifærum allra óháð kyni, hverskyns fötlunum, litarhætti, menningu og uppruna. Ekki skal líta á þessa upptalningu sem tæmandi. Jafnréttisstefnu Menntaskólans á Akureyri er framfylgt með jafnréttisáætlun.

Staða jafnréttisstýru/stjóra

Til að framfylgja ofangreindri stefnu er jafnréttisstýra (eða stjóri) skipuð og skal staðan auglýst. Ráðið er í starfið til tveggja ára. Hlutverk jafnréttisstýru/stjóra er fyrst og fremst að fylgja eftir stefnu skólans í jafnréttismálum og fylgist með þróun jafnréttismála innan sem utan skóla. Jafnréttisstýra/stjóri stýrir vinnu jafnréttisráðs skólans, heldur reglulega fundi og ritar fundargerðir. Leggja skal reglulega fyrir kannanir meðal starfsfólks og nemenda með það fyrir augum að kanna stöðu jafnréttismála. Þá er jafnréttisstýru/stjóra ætlað að hafa yfirumsjón með fræðslu til starfsmanna og nemenda í samvinnu við jafnréttisráð.

Jafnréttisráð er jafnréttisstýru/stjóra til stuðnings í málefnum sameiginlegum nemendum og kennurum. Ráðinu er ætlað að framfylgja jafnréttisáætlun MA og um leið að vera tengiliður milli nemenda og kennara. Jafnréttisstýra/stjóri sinnir formennsku í jafnréttisráði en það skal skipa ár hvert. Í því sitja tveir nemendur af ólíkum kynjum. Þá skulu vera tveir starfsmenn, af ólíkum kynjum, ásamt jafnréttisstýru/stjóra sem sinnir formennsku. Nemendur skulu aðeins koma að þeim málum sem snerta málefni nemenda beinlínis og er það jafnréttisstýru/stjóra að túlka hvenær slíkt á við. Jafnréttisráð fundar með FemMA, Femínistafélagi Menntaskólans á Akureyri, þegar við á, t.d. í tengslum við réttindamál nemenda og viðburði í félagslífinu. Einnig fundar jafnréttisstýra reglulega með stjórn skólafélagsins Hugins.

Jafnréttisáætlun

Við gerð jafnréttisáætlunar Menntaskólans á Akureyri er farið eftir jafnréttislögum nr. 10/2008. Í 28. gr laganna er sérstök áhersla lögð á bann við hverskonar mismunun á grundvelli kyns í skólum og öðrum mennta- og uppeldisstofnunum. Skylt er að gæta þessa í námi og kennslu, starfsháttum og daglegri umgengni við nemendur. Jafnréttisáætlun er tæki til að framfylgja jafnréttisstefnu skólans. Í jafnréttisáætluninni er sjónum beint að starfsmönnum skólans, rekstri hans, námi og kennslu. Hún er tvíþætt í eðli sínu líkt og stefnan.

Áætlunina á að endurskoða á þriggja ára fresti og ber jafnréttisstýru skólans að meta árangur sem náðst hefur samkvæmt settum mælikvörðum sem fram koma í aðgerðaáætlun (sjá töflur 1-6). Einnig skal jafnréttisstýra sjá til þess að viðbragðsáætlun sé fylgt eftir (sjá töflu x).

Vinnustaðurinn

Launaákvarðanir eiga að byggja á kjarasamningum og því skulu konur og karlar fá greidd jöfn laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Þá skal tryggja jöfn tækifæri til hverskyns yfir- eða aukavinnu sem kann að vera í boði. Hafa skal í huga að þetta á einnig við um hverskonar þóknun, beinar og óbeinar greiðslur til starfsmanna. Einnig skulu þeir njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hvers konar önnur starfskjör eða réttindi sem metin eru til fjár, sbr. 19.gr. laga nr. 10/2008.  Málefnaleg rök fyrir launamun eru aldur, menntun, vinnutími og starfsaldur.

 

Aðgerðaáætlun: tafla 1

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Starfsfólk njóti sömu kjara fyrir sömu og jafnverðmæt störf óháð kyni

Greining á launum starfsfólks

Jafnréttisstýra/stjóri í samráði við fjármálastjóra

Í október 2017 og svo á tveggja ára fresti eftir þaðKomi í ljós munur á heildarlaunum karla og kvenna skal kanna hvort hann er málefnalegur.
Upplýsa starfsfólk um niðurstöður á Þorrastefnu (fundi kennara í upphafi vorannar) ár hvert

Jafnréttisstýra/stjóri í samvinnu við fulltrúa starfsfólks í jafnréttisráði

Í október 2017 og svo á tveggja ára fresti eftir þaðLeiðrétta ef ómálefnalegur mismunur kemur fram

Skólameistari

Bregðast strax við, þ.e. um leið og könnun leiðir þetta í ljós

Tryggja að kynin hafi jafnan aðgang að yfirvinnu

Gera úttekt á yfirvinnu starfsfólks

Jafnréttisstýra/stjóri

Í október 2017 og á tveggja ára fresti eftir þaðKönnun þar sem spurt er um aðgang og áhuga á yfirvinnu

Jafnréttisráð

Í október 2017 og á tveggja ára fresti eftir þaðLeiði könnun í ljós að kynin hafi ekki jafnan aðgang þarf að bregðast við því

Skólameistari

Bregðast strax við, þ.e. um leið og könnun leiðir þetta í ljós

 

Laus störf

Samkvæmt jafnréttislögum skulu atvinnurekendur vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Það er sérstaklega tekið á því að jafna hlut kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum sbr. 18 gr. jafnréttislaga  (18/2008). MA leggur áherslu á að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum, tækifæri til að axla ábyrgð og framgang í störfum. Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið öllum kynjum sbr. 20. gr jafnréttislaga (18/2008) og stjórnendur skólans gera ráðstafanir til að tryggja að öll kyn njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar.


Aðgerðaáætlun: tafla 2

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Karlar og konur hafi jafna möguleika á störfum innan skólans

Í starfsauglýsingum eru störf auglýst með þeim hætti að ljóst sé að laus störf standi öllum til boða óháð kyni. Ef hallar á kyn má hvetja það sérstaklega til að sækja um

Skólameistari

Alltaf þegar við áSæki tveir jafnhæfir einstaklingar um starf við skólann skal velja einstakling af því kyni sem hallar á í viðkomandi deild

Skólameistari

 Þegar skipað er í nefndir og ráð innan skólans skulu kynjahlutföll vera jöfn sé þess kostur

Skólameistari

 

 

 

Starfsþjálfun og símenntun

Tryggja þarf samkvæmt lögum að allir njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar og símenntunar svo og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings fyrir önnur störf.

Aðgerðaáætlun: tafla 3

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Símenntun skal vera opin báðum kynjum og óháð aldri

Öllum er tilkynnt með tölvupósti það sem er í boði og eru hvattir til að sækja um

Skólameistari, aðstoðarskóla-
meistari

Þegar við áKönnun þar sem spurt er út í þátttöku í símenntun

Jafnréttisstýra/stjóri

Í október 2017 og á tveggja ára fresti eftir það

 

Samræming fjölskyldulífs og atvinnu

Mikilvægt er (sbr. 21. gr. jafnréttislaga 10/2008) að allir hafi jafna möguleika á að samræma starfsskyldur sínar og fjölskylduábyrgð. Komið er til móts við starfsfólk með því að gefa, eins og kostur er, sveigjanleika í skipulagningu á vinnu og vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu. Öll kyn eru hvött til að nýta sér fæðingarorlof og foreldrar eru hvattir til að skipta með sér veikindadögum vegna barna.

Aðgerðaáætlun: tafla 4

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Vinnutími er sveigjanlegur þar sem við á

Kennarar beri ábyrgð á sinni undirbúningsvinnu, óháð stund og stað

Skólameistari

Alltaf

 

Yfirvinnu er stillt í hóf

Ekki er þrýst á starfsfólk að taka yfirvinnu

Skólameistari

Alltaf

Fundir eru haldnir á dagvinnutímum

Fundir skulu vera á dagvinnutíma, nema sérstök ástæða sé til annars

Skipuleggjandi funda

Alltaf

Fæðingarorlof er nýtt jafnt af öllum kynjum

Starfsfólk er hvatt til að nýta sér rétt til fæðingarorlofs

Skólameistari

Kynnt sérstaklega nýju starfsfólki og verðandi foreldrum

Upplýsingaöflun um töku fæðingarorlofs og fjarveru frá vinnu vegna veikinda barna

Kannanir þar sem spurt er út í þessa þætti

Jafnréttisstýra í samvinnu við jafnréttisráð

Í október 2017 og á tveggja ára fresti eftir það

 

Ofbeldi, áreitni og einelti

Samkvæmt lögum ber atvinnurekendum að gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemendur verði fyrir hvers kyns ofbeldi, áreitni og/eða einelti. Með þessu er átt við kynbundið, kynferðislegt, andlegt og/eða líkamlegt ofbeldi, áreitni og/eða einelti. Skv. 2. gr. jafnréttislaga (10/2008) er kynbundin áreitni skilgreind sem hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi. Kynferðisleg áreitni er hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Kynbundið ofbeldi er ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennda sviptingu frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

Ofbeldi, einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og kynbundið ofbeldi er ekki liðið í Menntaskólanum á Akureyri. Mikilvægt er að einstaklingar upplýsi jafnréttisstýru/stjóra og/eða stjórnendur um hverskonar áreitni, ofbeldi eða einelti þeir verða fyrir.  Skal þá tryggt að allt fari fram í trúnaði. Allar tilkynningar eru teknar alvarlega og viðeigandi viðbragðsáætlun hrint í framkvæmd.

Aðgerðaáætlun: tafla 5

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Efla þekkingu nemenda og starfsfólks um ofbeldi, einelti og áreitni

Fræðsla og umræður

Jafnréttisstýra/stjóri

Þegar við á.
Í tengslum við skipulag náms og kennslu

Afla upplýsinga þar sem starfsfólk er spurt hvort það hafi orðið fyrir áreitni

Könnun

Jafnréttisstýra/stjóri

Í október 2017 og á tveggja ára fresti eftir það

 

Skólastarfið

Huga þarf að heildarjafnréttisstefnu fyrir skólann og er því mikilvægt að horfa til skólastarfsins þar sem nemendur eru þátttakendur í stefnumótun. Markmiðið er að kynjahlutföll séu sem jöfnust þegar komið er fram fyrir hönd skólans. Það er ýmislegt sem kemur fram um jafnrétti í tengslum við menntun og skólastarf í jafnréttislögum (23.gr.). M.a. er nefnt að á öllum skólastigum eigi nemendur að fá fræðslu um jafnréttismál og kennslu- og námsgögn eiga ekki að mismuna kynjum.

Í allri kennslu í Menntaskólanum á Akureyri skal vinna að því að breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna markvisst gegn neikvæðum staðalímyndum. Mikilvægt er að vinna skipulega að sjálfstæði og sjálfsvirðingu beggja kynja. Mikilvægt er að upplýsa nemendur um jafnrétti almennt. Í menningarlæsi, sem er þverfaglegur áfangi á 1. ári,  eru nemendur virkjaðir með umræðum og verkefnum sem snúa að jafnrétti. Nú er kynjafræði valfag fyrir allar brautir auk þess sem það er skyldufag fyrir nemendur á félagsgreinabraut. Taka má fram að fjallað er um jafnrétti í ýmsum fleiri áföngum skólans, svo sem íslensku, lífsleikni og félagsfræði. Auk þess er markmiðið að fá jafnréttisfræðslu fyrir bæði nemendur og starfsfólk, haustið 2017 eða vorið 2018. Jafnréttisráð skólans fékk fjármagn fyrir því úr Uglusjóði, hollvinasjóði Menntaskólans á Akureyri. Stefnt er að því að fá fræðslu í skólann annað hvert skólaár frá 2017-2018, fáist nægilegt fjármagn til þess. Jafnframt ætlar jafnréttisráð að fá jafnréttistengda fræðslu á opna daga í skólanum, sem nefnast Ratatoskur. Jafnréttisstýra fer fram á að sitja fundi með stjórn nemendafélagsins einu sinni í mánuði og koma þar jafnréttissjónarmiðum á framfæri.

Lögð er áhersla á að nemendur séu virkir og skapandi í sínu starfi óháð kyni. Kynjasamþættingar er gætt við alla ákvörðunartöku sem snýr að nemendum auk þess sem náms- og starfsfræðsla fer fram algjörlega óháð kyni, á jafnréttisgrundvelli. Heilt yfir er unnið samkvæmt aðalnámsskrá frá 2011 þar sem jafnrétti er skilgreint sem einn af grunnþáttum skólastarfs. Kennarar og starfsfólk eru fyrirmyndir og ber að fylgja jafnréttisstefnu skólans.

Aðgerðaáætlun: tafla 6

MARKMIÐ

AÐGERÐ

ÁBYRGÐ

TÍMARAMMI

Nemendur eru þátttakendur í stefnumótun jafnréttisstefnu

Fulltrúar nemenda í jafnréttisráði hafa áhrif á jafnréttisáætlun skólans

Jafnréttisstýra/stjóri
(jafnréttisráð)

Vor 2017 og svo endurskoðað næst skólaárið 2020/2021

Allt starfsfólk skal vera jafnréttissinnað í sínu starfi

Jafnréttisfræðsla

Jafnréttisstýra/stjóri
(Jafnréttisráð)

Fyrst skólaárið 2017/2018 og svo aftur 2019/2020

 

Kennarar skulu taka fram í áfangaskýrslum hvernig unnið var með grunnþáttinn jafnrétti í þeirra áföngum

Stjórnendur

Fyrst haustönn 2017 og svo á hverri önn eftir það


Eftirfylgni
Til að hægt sé að fylgja áætluninni eftir er hún kynnt starfsfólki um leið og hún tekur gildi og rædd á fundum starfsfólks á hverju skólaári. Þar eru kennarar minntir á grunnþáttinn jafnrétti sem á að vinna með þvert á allar greinar og tilgreina í áfangaskýrslum hvernig til tókst. Allir starfsmenn svara könnunum á tveggja ára fresti sem snúa að jafnrétti (sjá í töflum/aðgerðaráætlun hér að ofan). Farið verður yfir niðurstöður þeirra kannana á sameiginlegum fundum alls starfsfólks og brugðist við niðurstöðum ef þurfa þykir. Starfsfólk er hvatt til að hafa samband við jafnréttisráð ef upp kemur óþægileg staða, ef því vantar ráðgjöf, vill koma með ábendingar eða annað.

Í upphafi hvers skólaárs, þegar jafnréttisráð hefst handa með nýjum nemendum innanborðs, skal senda út tilkynningu til allra nemenda skólans þar sem fram koma mögulegar leiðir til að hafa samband við ráðið. Þá er öllum ljóst hverjir eru í jafnréttisráði og eru nemendur hvattir til að hafa samband ef eitthvað er.

Ljóst er að staðan í Menntaskólanum á Akureyri, hvað varðar jafnrétti, virðist vera góð - en það má alltaf gera betur. Aðgerðaráætlun og jafnréttisstefna skólans stuðla að enn betra starfs- og námsumhverfi fyrir alla sem að skólanum koma.