Í Menntaskólanum á Akureyri er lögð áhersla á að námsmat sé fjölbreytt og reyni á þekkingu, leikni og hæfni. Það gildir um allar námsbrautir skólans, félagsgreinabraut, mála- og menningarbraut, náttúrufræðibraut og raungreinabraut. Nemandi sem hefur lokið stúdentsprófi frá skólanum á þannig að hafa

  • unnið fjölbreytileg verkefni, bæði einstaklings- og hópverkefni sem reyna á ólíka hæfniþætti, s.s. virkni, samvinnu, sköpun, ástundun og sjálfstæði í vinnubrögðum
  • tekið margs konar skrifleg og munnleg verkefni
  • unnið viðamikil verkefni í samræmi við áhugasvið og áherslur í náminu

Námsmatið í MA hefur tvíþættan tilgang. Annars vegar að meta árangur skólastarfsins þannig að nemandinn, kennarinn og skólinn viti hvernig gengur að ná settum markmiðum námsins. Hins vegar gegnir námsmatið því markmiði að vera leiðsagnarmat, leiðbeina nemendum á uppbyggilegan hátt hvernig þeir geti bætt þekkingu sína, leikni og hæfni. Mikilvægt er að námsmatið endurspegli þau markmið sem sett eru í náminu og það sé áreiðanlegt, réttmætt og sanngjarnt.

Hver deild setur sér reglur um skil sem koma fram á námsáætlun hvers áfanga. Ekki er heimilt að leggja fyrir nýtt verkefni eða próf sem gildir 20% eða meira síðustu tvær kennsluvikur fyrir próf.

Í Menntaskólanum á Akureyri er boðið upp á þrjár tegundir áfanga:

Lokaprófsáfanga

Í lokaprófsáfanga er námsmat fjölbreytt og reynir á þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Námsmatið á að vera upplýsandi um stöðu nemandans í viðkomandi áfanga og leiðbeina honum á uppbyggilegan hátt, með reglulegri endurgjöf, hvernig hann getur bætt þekkingu sína, leikni og hæfni. ​

Ljúki áfanga með lokaprófi skal vægi þess að jafnaði vera 30% - 70% og þarf það að vera yfirfarið og samþykkt af fagstjóra/öðrum kennara í deildinni. Auk lokaprófs skal áfanginn byggja á að minnsta kosti þremur öðrum námsmatsþáttum. Í námsáætlun hvers áfanga er gerð frekari grein fyrir tilhögun námsmats.​

Símatsáfanga

Í símatsáfanga er námsmat fjölbreytt og reynir á þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Námsmatið á að vera upplýsandi um stöðu nemandans í viðkomandi áfanga og leiðbeina honum á uppbyggilegan hátt með reglulegri endurgjöf hvernig hann getur bætt þekkingu sína, leikni og hæfni. ​

Námsmat í símatsáfanga þarf að minnsta kosti að byggja á fjórum ólíkum námsmatsþáttum. Miðað er við að enginn námsmatsþáttur gildi meira en 35% af lokaeinkunn. Í námsáætlun hvers áfanga er gerð frekari grein fyrir tilhögun námsmats.

Lokaverkefnisáfanga

Í lokaverkefnisáfanga er námsmat fjölbreytt og reynir á þekkingu, leikni og hæfni nemenda. Námsmatið á að vera upplýsandi um stöðu nemandans í viðkomandi áfanga og leiðbeina honum á uppbyggilegan hátt með reglulegri endurgjöf hvernig hann getur bætt þekkingu sína, leikni og hæfni. ​

Nemandi velur sér verkefni miðað við sína námsbraut í samráði við kennara/leiðbeinanda. Öllu jafna er lokaverkefnið einstaklings- eða tveggja manna verkefni. Mikil áhersla er lögð á sjálfstæð og skapandi vinnubrögð. Leggja þarf mat á a.m.k. fjóra þætti þar sem minni verkefni leiða að lokaverkefni. Vægi lokaverkefnis þarf að lágmarki að vera 50%. Í námsáætlun hvers áfanga er gerð frekari grein fyrir tilhögun námsmats.