Nemandi sem hefur hlotið lokaeinkunn undir lágmarki í þremur greinum sem eiga sér eftirfara hefur heimild til að endurtaka námsmat/próf í þeim áföngum. Nemandi sem fellur í fjórum áföngum (yfir skólaárið) sem eiga sér eftirfara telst vera fallinn á bekknum og hefur ekki heimild til endurtöku. Nemandi í þessari stöðu getur átt þess kost að nýta sér reglur um sveigjanleg námslok og þarf að setja sig í samband við brautastjóra,

Nemandi sem fellur í áföngum og mætir ekki í endurtöku telst fallinn á bekk og hættur í skólanum.

Nemandi sem fellur á endurtöku í áfanga en lýkur honum með tilskyldum árangri í fjarnámi um sumarið getur sótt um skólavist að nýju. Mikilvægt er að nemandi hafi samband við stjórnendur eða námsráðgjafa í síðasta lagi 25. júní, varðandi áframhaldandi nám. Skólasókn getur haft áhrif á hvort nemandi er tekinn inn að nýju.

Fyrirkomulag endurtöku

 Endurtaka námsmats er í lok skólaárs eftir að reglulegum vorannarprófum lýkur. Endurtökutafla birtist þó ekki fyrr en reglulegum prófum er lokið. Ef nemandi hefur árekstra í próftöflu endurtekningarprófa getur hann sótt um að annað prófið verði flutt.

Skólinn ákveður í hvaða áföngum er boðið upp á endurtöku í janúar, en að jafnaði eru það stakir áfangar eða lokaáfangar og er þá ekki boðið upp á endurtöku í þeim áföngum aftur að vori.

Þegar endurtaka áfanga felst í próftöku gilda mismunandi reglur í námsgreinum hvort endurtökuprófið gildir 100% eða hvort símat gildir áfram. Í flestum greinum gildir símatið einnig í endurtökuprófum. Nemanda ber að kynna sér sjálfur þessar reglur hjá viðkomandi kennara. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á að gera sér grein fyrir stöðu sinni að vori hvað varðar endurtöku og skilyrði til að flytjast upp á milli bekkja.

Skráning og greiðsla

Nemendur þurfa að skrá sig í endurtöku í afgreiðslu skólans eða með því að senda póst á afgreidsla@ma.is. Greiða þarf fyrir endurtökupróf og er prófgjaldið, 10.000 kr. Hægt er að greiða prófgjaldið í afgreiðslu eða millifæra inn á reikning skólans.