- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menntaskólinn á Akureyri er ein af elstu og helstu menntastofnunum landsins. Hann er ekki einungis gamalgróin stofnun heldur jafnframt nútímalegur skóli í stöðugri þróun. Þó er þess gætt að skólastarfið standi meira og minna á gömlum merg.
Einkunnarorð skólans eru: Virðing - Bjartsýni - Seigla - Árangur
Meginmarkmið skólans er sem fyrr að búa nemendur vel undir háskólanám í lýðræðisþjóðfélagi og koma öllum nemendum til nokkurs þroska. Þetta hefur skólanum auðnast að gera lengi og stúdentar frá MA hafa, eins og kannanir til margra ára hafa sýnt, náð góðum árangri í háskólanámi. Nemendur MA eru 550-580 á ári hverju og brautskráðir stúdentar 17. júní eru jafnan á bilinu 140-170 talsins.
Menntaskólinn á Akureyri hefur frá upphafi verið bekkjaskóli og er það enn, en náminu er skipt í áfanga á tveimur önnum. Bekkirnir annars vegar og heimavistin hins vegar hafa verið grundvöllur að samheldni í skólasamfélaginu og eru snar þáttur í þeirri órofa tryggð sem nemendur sýna skólanum.
Námstími til stúdentsprófs var lengst af 4 ár en frá árinu 2016 var tekin upp ný skólaskipan og námslok geta verið sveigjanleg. Nemendum gefst þannig kostur á að velja sér námstíma 3, 3½ eða 4 ár. Langflestir brautskrást að þremur árum loknum.
Menntaskólinn á Akureyri á nánustu rætur að rekja til hins endurreista norðlenska skóla á Möðruvöllum í Hörgárdal, sem stofnaður var 1880, en hann var arftaki stólskólans eða dómsskólans á Hólum í Hjaltadal. Sá skóli mun hafa verið stofnaður í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundarsonar árið 1106 og stóð allt til ársins 1801, en þá voru biskupsstólarnir á Hólum og í Skálholti lagðir niður og allt starf þeirra flutt til Reykjavíkur.
Norðlenskur skóli var endurreistur 1880, en þá var settur gagnfræðaskóli á Möðruvöllum í Hörgárdal, en bændaskóli á Hólum í Hjaltadal, hinu forna skóla- og biskupssetri, var stofnaður 1882. Eftir að skólahús á Möðruvöllum brann árið 1902 var skólinn fluttur til Akureyrar. Gamli skóli, hið mikla og fagra timburhús á Brekkubrúninni, var reistur sumarið 1904, íþróttahúsið ári síðar og hús Heimavistar á árunum 1946-1956. Haustið 1969 var tekið í notkun kennsluhús fyrir raungreinar með samkomusal í kjallara, Möðruvellir. Haustið 1996 var síðan tekið í notkun nýtt kennsluhúsnæði, Hólar, með 9 stórum kennslustofum, vel búnu bókasafni og samkomusal, sem gengur undir nafninu Kvosin, og rúmar 600-700 manns í sæti. Sumarið 2003 var svo tekið í notkun á skólalóðinni nýtt heimavistarhús. Þá var stofnað rekstrarfélag um heimavist fyrir nemendur úr báðum framhaldsskólunum á Akureyri, Menntaskólanum og Verkmenntaskólanum, sem hýsir um það bil 300 nemendur í eins og tveggja manna herbergjum.
Gagnfræðaskólinn á Möðruvöllum var fyrsti gagnfræðaskóli landsins og þar var í upphafi ætlað að kenna verðandi bændum hagnýt fræði. Eftir bruna skólahússins á Möðruvöllum og þegar skólinn var kominn til Akureyrar breyttist nafn hans og varð Gagnfræðaskólinn á Akureyri.
Fljótt var mikil áhersla lögð á kennslu í fræðum á borð við íslenskt mál og náttúruvísindi og snemma kom upp sú skoðun að hinn norðlenski skóli yrði gerður að stúdentaskóla. Á árunum eftir 1920 tók sú barátta að bera nokkurn árangur, en árið 1924 var byrjað að kenna námsefni til stúdentsprófs. Fyrstu stúdentarnir sem höfðu hlotið menntun sína í hinum norðlenska skóla voru með undanþágu brautskráðir frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1927. Með lögum frá Alþingi árið 1930 var loks kveðið á um að á Akureyri skyldi vera „skóli með fjórum óskiptum bekkjum, er nefnist Menntaskólinn á Akureyri.“ Allar götur síðan hafa stúdentar brautskráðst frá Menntaskólanum á Akureyri og voru 17. júní árið 2025 orðnir 9691 talsins.
Í Menntaskólanum er aðstaða góð til náms. Kennt er í bekkjum en námið er áfangaskipt.
Samkvæmt nýjustu námsskrá býður skólinn upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs, eða 200 framhaldsskólaeiningar, með valmöguleikum nemenda að taka stúdentspróf á lengri tíma, 3½ eða 4 árum. Námið skiptist í sameiginlegan kjarna, bundið pakkaval og brautarkjarna.
Á Hólum, þar sem segja má að hjarta skólans slái ákafast, er Kvosin, þar sem allir nemendur og flestir kennarar eiga leið um og meginhluti félagsstarfsins fer fram, en þar er einnig bókasafn skólans og lesaðstaða fyrir 80 nemendur. Nemendur hafa auk þess lesaðstöðu í kennslustofum skólans utan kennslutíma, fram á kvöld virka daga. Í skólanum er mikil verkefnavinna, bæði einstaklings- og hópverkefni, og tölvutækni, hljóðtækni og myndtækni meira og minna notað við efnisöflun og skil. Námsumhverfið Canvas er notað og skólinn hefur samning við Microsoft Office um full afnot af hugbúnaði þess.
Í skólanum var lengst af hefðbundin bekkjakennsla en tímarnir hafa breyst og mennirnir með. Nám og kennsla er með fjölbreytilegu móti, verkefnamiðað, mikil hópvinna auk einstaklingsverkefna, stórra og smárra. Áhersla er á munnleg jafnt sem skrifleg skil á verkefnum, leitarnám og leiðsagnarnám og námsferðir, svo eitthvað sé nefnt. Frá og með hausti 2025 er þriðjungur námstímans í skólanum í svokölluðum vinnustundum, þar sem nemendur hafa meira sjálfræði að hvaða verkefnum þeir vinna og njóta til þess aðstoðar kennara.
Í upphafi var ein námsbraut við MA og kallaðist máladeild. Árið 1934 var stofnuð stærðfræðideild en árið 1966 skiptist hún í eðlisfræðibraut og náttúrfræðibraut. Árið 1972 var stofnuð félagsfræðibraut og síðar var tekin upp kennsla á tónlistarbraut í samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri og myndlistarbraut í samstarfi við Myndlistaskólann á Akureyri. Myndlistarbraut hefur verið flutt í Verkmenntaskólann. Að viðbættu þessu var við skólann á árunum 1975-1993 öldungadeild í kvöldskóla og á árunum 1980-1984 var haldið úti kennslu á verslunarbraut í samvinnu við Gagnfræðaskólann á Akureyri. Hvort tveggja varð leyst af hólmi með tilkomu Verkmenntaskólans á Akureyri.
Nöfn á brautum, deildum eða sviðum hafa breyst í tímans rás, en með námskrá frá 2016 eru í skólanum mála- og menningarbraut, félagsgreinabraut, náttúrufræðibraut (sem skiptist á öðru ári í þrjár brautir) og kjörnámsbraut í kvikmyndum, sviðslistum og tónlist. Tónlistarkennslan á kjörnámsbrautinni er í höndum Tónlistarskólann á Akureyri og fleiri tónlistarskóla og kvikmyndahlutinn er í Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki.
Nýjasta námsbrautin er íslenskubrú, en það er tveggja ára námsbraut í íslensku fyrir nemendur af erlendum uppruna.
Í Menntaskólanum á Akureyri hefur verið unnið að nýjungum í kennsluháttum og samþættingu námsgreina með samvinnu kennara í ólíkum greinum.
Megin hlutverk starfsfólks skólans er að hjálpa nemendum að verða góðir námsmenn og farsælar menneskjur. Sýn skólans er að allir nemendur geti lært og tekið framförum og einkunnarorð skólans, virðing, bjartsýni og seigla eru leiðarljósin svo hver og einn nái þeim árangri sem stefnt er að.
Frá hausti 2025 er námstíma nemenda í skólanum skipt upp í kennslustundir undir stjórn kennara og vinnustundir (1/3 hluti tímans) en þar vinna nemendur að verkefnum og sinna námi sínu og geta sótt til þess aðstoð kennara. Markmiðið er að auka ábyrgð nemenda á eigin námi, hafa námið nemendastýrðara og auka sveigjanleika í skólastarfinu.
Mikið símat er í skólanum og jöfn verkefnavinna yfir alla önnina. Tæplega helmingur áfanga eru símatsáfangar en hinum lýkur með lokaprófi eða hlutaprófi.
Sívaxandi tölvueign nemenda og tölvunotkun hefur á undanförnum árum breytt námi þeirra mikið, en skólinn leitast við að fá nemendur til að temja sér góðar og gagnlegar aðferðir við að nota tölvur og síma á jákvæðan hátt í námi. Skólinn hefur markað skýra stefnu um það.
Námsferðir eru hluti af námi nemenda. Á fyrsta ári er farið í Mývatnssveit í áfanganum náttúrulæsi og nemendur í menningarlæsi fara í ferð til Siglufjarðar. Nemendur á 2. ári fara í ferðir tengdar íslenskuáföngum og jarðfræði. Að auki er boðið upp á valáfanga á þriðja ári til Berlínar, Lundúna og Parísar.
Kappkostað er að nemendum geti liðið vel í Menntaskólanum á Akureyri og nemendavernd skiptir þar sköpun. Náms- og starfsráðgjafar, skólasálfræðingur, hjúkrunarfræðingur, félagsmálafulltrúi og umsjónarkennarar eru lykilaðilar í nemendavernd. Menntaskólinn á Akureyri leggur ríka áherslu á að nemendur skólans tileinki sér heilbrigðan lífsstíl, jákvætt viðhorf og mannbætandi tómstundir er efla félagsþroska þeirra. Skólinn vill gera nemendum kleift að styrkja sjálfsmynd sína og sjálfsvirðingu með það að markmiði að auka færni þeirra í lífsleikni og sporna gegn allri sjálfseyðandi hegðun. Einn liður í forvarnarstarfi skólans og nemendavernd er áfanginn Nýnemafræðsla og forvarnir. Nemendur í fyrsta bekk hafa eina kennslustund á viku í áfanganum. Viðfangsefnin eru fjölmörg og má þar nefna tímastjórnun, skipulögð vinnubrögð, hvernig námsmaður er ég?, próftækni, kynningu á mikilvægi svefns, kynning á HAM, vinna í tengslum við forvarnadaginn, kennsla í núvitund og geðfræðslu, seigluþjálfun og slökun.
Skólaárið hefur verið fært til og nú er skóli settur í kringum 20. ágúst. Prófum lýkur í desember, fyrir jólafrí. Vorönn hefst í byrjun janúar hefst og lýkur með próftíð seinnihluta maímánaðar. Brautskráning er 17. júní. Skóla er þá slitið við veglega athöfn í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þá um kvöldið er haldin í höllinni hátíðarsamkoma nýstúdenta, vina þeirra og vandamanna, með kvöldverði, skemmtun og dansi.
Sú ríka hefð að tengja brautskráningu þjóðhátíðardeginum 17. júní, sem verið hefur í MA allt frá árinu 1944, á ásamt bekkjakerfi og heimavist drjúgan þátt í því að hafa skapað þau miklu og órjúfanlegu tengsl sem eru milli skólans og gamalla nemenda hans. Hinn 16. júní ár hvert er haldin MA-hátíðin, en þá koma saman í Íþróttahöllinni stúdentar úr flestum árgöngum sem eiga afmæli sem stendur á heilum eða hálfum tug. Þarna eru jafnan saman komnir á bilinu 600 – 800 gestir. Viðlíka fjöldi gesta kemur við í skólanum um miðjan dag 17. júní, en þá er þar opið hús. Þar má sjá marga gamla nemendur rifja upp liðna tíð og vökva lífsblómið með endurminningum. Rækt sú sem gamlir nemendur sýna skólanum er honum ómetanleg.
Starfsfólk skólans er að jafnaði um 70, þar af ríflega 50 kennarar.
Félagslíf í Menntaskólanum á Akureyri hefur áratugum saman verið talið afar fjölskrúðugt, enda hafa skólayfirvöld gætt þess vel að sameina í skólalífinu hefðbundið nám og fjölbreytt, heilbrigt tómstundastarf. Nemendum er í mun að rækja þá hefð að félagsstarf á vegum skólans og í húsum hans sé samkvæmt ströngustu reglum um bindindi, en slíkur metnaður er hollur þegar frá líður. Stærsti viðburðurinn er árshátíðin þar sem um 600 gestir, nemendur og starfsfólk, halda glæsilega vímuefnalausa hátíð með mat og skemmtiatriðum og balli.
Innan skólans er eitt nemendafélag, Huginn, skólafélag Menntaskólans á Akureyri. Á snærum þess er fjöldi annarra félaga. Aðstaða til félagsstarfs er góð. Skólafélagið hefur til umráða nokkur herbergi í Möðruvallakjallara auk hins mikla salar í Kvosinni, en þar eru hljómbúr og tækjageymsla. Þá er á Hólum sjoppa þriðjubekkinga til ágóða fyrir útskriftarferð þeirra. Auk þess sem haldnar eru kvöldvökur, tónleikar, söngkeppni og margt fleira í Kvosinni taka nemendur þátt í félagsstarfi á landsvísu og keppni við félaga sína í öðrum skólum. Reglulega er keppt í íþróttum innan skólans og á framhaldsskólamótum. Nemendur MA hafa um árabil tekið þátt í spurningakeppninni Gettu betur, ræðukeppni MORFÍs og Söngkeppni framhaldsskólanna og unnið nokkrum sinnum. Þá hafa nemendur um árabil tekið þátt í landskeppni í efnafræði, eðlisfræði og stærðfræði og staðið sig oft með ágætum og verið í ólympíuliðum landsins í þessum greinum. Eins hafa nemendur staðið sig vel og iðulega unnið til verðlauna og utanlandsferða í þýskuþraut og smásagnakeppni á ensku. Hið gamla íþróttahús MA er einnig mjög mikið notað til félagsstarfs utan kennslustunda, bæði til líkamsræktar og sem æfingahúsnæði fyrir stórar æfingar Leikfélags MA.
Helstu félög eru:
LMA, leikfélag Menntaskólans á Akureyri, sem setur upp viðamikinn söngleik á hverju ári.
Málfundafélag MA, sem sér um Gettu betur og MorfÍs.
ÍMA, íþróttafélag MA, sem sér um ýmsa íþróttaviðburði, s.s. bekkjakeppnir síðdegis á föstudögum.
FemMA, femínistafélag MA.
PrideMA, félag hinsegin nemenda við MA. Trúnaðarmaður þeirra er Kristín Elva skólasálfræðingur.
PriMA, dansfélag MA.
Muninn, skólablað Menntaskólans á Akureyri, sem kemur að jafnaði út þrisvar á ári.
TóMA, tónlistarfélag MA. Það stendur fyrir tónlistarkeppnum og myndar oftast skólahljómsveit á hverju ári sem spilar við ýmsa viðburði.
SauMA, söngfélag MA eða kór skólans.
Auk þessara félaga eru ýmis myndbandafélög og mörg önnur félög.
Lengi hefur Akureyri verið kölluð skólabærinn Akureyri og það var ekki síst vegna Menntaskólans á Akureyri og þess bæjarbrags sem skólinn skapaði löngum. Hann mótaði sér frá upphafi sérstöðu og nemendur frá honum báru nafn hans hátt. Í upphafi var þeim í mun að sanna að þeir stæðu að minnsta kosti jafnfætis þeim sem brautskráðust úr Reykjavíkurskóla, það væri líka hægt að menntast og verða gagnfræðingur eða stúdent utan Reykjavíkur. Enn ríkir metnaður í skólanum og meðal nemenda hans, enda hafa þeir fram á þennan dag sýnt og sannað að Menntaskólinn á Akureyri er góður skóli og gefur af sér góða stúdenta sem ná framúrskarandi árangri í háskólum heima og erlendis.
Akureyri hefur á tiltölulega stuttum tíma breyst úr miklum iðnaðarbæ með einum stórum skóla í að vera umtalsverður skólabær með öllu því er slíkan bæ prýðir. Auk Menntaskólans á Akureyri er annar framhaldsskóli, Verkmenntaskólinn á Akureyri, sem býður jöfnum höndum upp á bóklegt nám og verklegt nám ásamt styttri námsbrautum, og Háskólinn á Akureyri, sem getur sér gott orð meðal háskóla á Íslandi og er í miklum samskiptum við erlenda skóla.
Mjög mikið og vaxandi menningarlíf og gríðarlega mikil og vönduð aðstaða til íþrótta auk framúrskarandi sjúkrahúss og heilsugæslu eru traust umhverfi skólabæjarins Akureyrar, auk þess sem leik- og grunnskólar hafa fyrirmyndir og keppimörk í framhaldsskólunum og háskólanum.
Frá upphafi hafa nemendur Menntaskólans á Akureyri, áður Gagnfræðaskólans á Möðruvöllum og Gagnfræðaskólans á Akureyri, verið úr öllum landsfjórðungum. Einkenni skólans er meðal annars heimavist þar sem saman kemur fólk úr ólíkum héruðum með ólíkan uppruna og skapar á heimavistinni nýtt samfélag með blöndu úr öllum þessum straumum. Stundum hafa lög kveðið svo á að nemendur ættu að sækja skóla í heimabyggð sinni, en sókn eftir því að komast í MA hefur þó ævinlega verið mikil. Þróunin hefur þó orðið í þá átt að Akureyringar og nemendur af norðanverðu landinu eru langflestir. Það hefur jafnan verið stefna skólans og er enn að vera landsmenntaskóli, sem geti þjónað nemendum hvaðan sem þeir koma af landinu. Eins hefur farið í vöxt að skólinn taki við nemendum sem hafa búið erlendis og lítt eða ekki sótt íslenska skóla.
Þessi gamli skóli, sem getur á góðum degi rakið sögu sína þúsund ár aftur í tímann, stefnir ótrauður inn í framtíðina með öllu því góða sem hún hefur í boði.
Textinn er að grunni eftir Sverri Pál Erlendsson.