Allir framhaldsskólar hafa farið í gegnum mikla endurskoðun á námi undanfarin ár. Hver skóli gerir námsbrautarlýsingar, ásamt áfangalýsingum, sem fara í matsferli hjá Menntamálastofnun. Samþykkt námsbrautarlýsing fer síðan til ráðuneytis til staðfestingar. Hún felur í sér að lýsing á uppbyggingu námsbrauta, uppbyggingu náms á hæfniþrep, inntökuskilyrðum og skilyrðum um framvindu náms, grunnþáttum og lykilhæfni og námsmati sé í samræmi við aðalnámskrá framhaldsskóla.

Nú á vordögum fékk MA staðfestingu á sínum námsbrautum sem eru alls 5;

  • félagsgreinabraut,
  • mála- og menningarbraut,
  • náttúrufræðibraut,
  • raungreinabraut og loks
  • kjörnámsbraut.

Sú síðastnefnda er afsprengi samstarfs framhaldsskólanna á Norðurlandi og er hugsuð fyrir nemendur sem vilja sérhæfa sig á ákveðnu sviði náms. Fyrsta námsleiðin sem boðið er upp á er kjörnámsbraut með áherslu á tónlist. Nemendur taka 86 einingar í kjarna í MA, 90-96 einingar í tónlist og þær einingar sem eftir standa til 200 eininga stúdentsprófs eru valgreinar sem nemendur geta hvort sem er tekið í MA eða viðkomandi tónlistarskóla.

MA hefur átt mikið og gott samstarf við Tónlistarskólann á Akureyri við undirbúning þessarar brautar og mun skólinn bjóða upp á þrjár leiðir í tónlistarsérhæfingunni, sem eru skapandi tónlist, klassísk tónlist og rytmísk tónlist.

Tónlistarskólinn hefur útbúið kynningarmyndbönd um námsleiðina: