Skólafundur með 2. og 3. bekk
Skólafundur með 2. og 3. bekk

Skólafundur var haldinn með 2. og 3. bekk í dag, 1. febrúar, til að ræða það spennandi verkefni að tveir árgangar brautskrást vorið 2019. Fulltrúar nemenda úr öðrum og þriðja bekk hafa hitt stjórnendur til undirbúnings og fjölluðu þeir um ýmis atriði á fundinum sem tengjast félagslífinu.

Una Magnea Stefánsdóttir forseti Hagsmunaráðs var fundarstjóri, setti fundinn og ræddi tilgang hans. Skólameistari kynnti að það verður ein sameiginleg brautskráning 17. júní 2019 en báðir árgangarnir fá að njóta sín, til dæmis hvað varðar verðlaun og viðurkenningar. Stefnt er að því að hafa veisluna um kvöldið með óbreyttum hætti en mögulega þarf eitthvað að takmarka gestafjölda.

Brautskráningin 2019 verður einstök í sögu Menntaskólans á Akureyri því aldrei hefur svo fjölmennur hópur nemenda verið brautskráður og það er mikið tilhlökkunarefni.

Fulltrúar nemenda ræddu um árshátíð skólans og hvöttu nemendur til að vera tímanlega í að útvega sér þjóðbúninga. Þeir lögðu til að árgangarnir myndu dimittera hvor í sínu lagi og ekki á sama degi.

Loks var umræða um útskriftarferð og stefnir núverandi annar bekkur að því að fara í ferð milli lokaprófa og brautskráningar 2019.

Þessari samræðu árganganna og stjórnenda verður haldið áfram og hyggjast nemendur stofna ráðið Sleipni sem á að vinna að því að undirbúa þau atriði og verkefni sem tengjast því að vera á lokaárinu.