Dúx skólans, Birta Rún
Dúx skólans, Birta Rún

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 140. sinn í dag 17. júní í blíðskaparveðri.

Brautskráningin fór fram í Íþróttahöllinni sem var skipt upp í sóttvarnarhólf og gestir gátu því verið viðstaddir. Skólinn var þó ekki opinn gestum og gangandi eins og venja er til 17. júní og veisla nýstúdenta, fjölskyldna þeirra og starfsmanna skólans fellur líka niður í ár. 25 ára jubilantar sem skipuleggja hátíðahöldin 16. júní tóku þá ákvörðun í apríl að fresta hátíðinni þar til 18. júní 2021 og eins og skólameistari kom inn á í ræðu sinni eru mörghundruð manns með brostið hjarta sem sýnir hvað endurfundir MA-inga eru þeim mikilvægir. Venjulega er ekki þverfótað á Akureyri fyrir gömlum MA-ingum um þetta leyti árs sem halda upp á stúdentsafmæli sitt og fulltrúar árganganna flytja ræðu við brautskráninguna. Að þessu sinni voru þó aðeins fulltrúar 10 og 25 ára stúdenta viðstaddir brautskráningu. Fulltrúi 25 ára stúdenta tilkynnti að venju úthlutun úr Uglusjóði, sem styrkir þróunarstarf og námsefnisgerð kennara og félagslíf nemenda.

Alls voru 186 stúdentar brautskráðir og það er annað skiptið sem svo fjölmennur árgangur brautskráist frá skólanum. Meðaleinkunn árgangsins á stúdentsprófi, það er meðaleinkunn allra einkunna á námstímanum, var há eða 7,81.

Hæstu einkunn í fyrsta bekk hlaut Óðinn Andrason, 9,8 

Hæstu einkunn í öðrum bekk hlaut Trausti Lúkas Adamsson, 9,6 

Hæstu einkunn í þriðja bekk hlaut Birta Rún Randversdóttir, 10,0 

Dúx skólans er Birta Rún Randversdóttir. Hún brautskrifast með meðaleinkunnina 9,93 sem er hæsta meðaleinkunn á stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Meðaleinkunn hennar tvö síðastliðin skólaár var slétt 10. Sjá viðtal við Birtu Rún á mbl.is. Semiduxinn er Harpa Kristín Sigmarsdóttir með 9,67 en hún fékk líka bara níur og þó aðallega tíur í einkunn.

Í ræðu sinni fjallaði skólameistari um þessa sérstöku tíma og hversu mikilvægt væri að læra af þeim. Hann sagði nemendur og kennara hafa verið fljóta að tileinka sér fjar-nám og kennslu, ókunnir hefðu getað haldið að gamalgróinn skóli eins og MA yrði í vandræðum í þessum breytingum, en öðru nær, skólinn er framsækinn og lausnamiðaður í verkefnum.

,,Við lærðum til muna að meta mikilvægi staðskóla, samfélags, persónulegrar kennslu, mikilvægis félagslífs og skiljum betur að félagslegar hefðir MA sem okkur þykir hvað vænst um miða að félagstengslum og vináttu.‘‘

Skólameistari sagði að þótt MA væri bekkjaskóli hefði hann sína útgáfu af bekkjakerfinu sem eigi að þjóna nemendum og náminu. Í það hefur verið búinn sveigjanleiki þannig að nemendur geta stjórnað námsálagi sínu og lokið stúdentsprófinu á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Stúdentsbrautirnar eru fjórar, auk kjörnámsbrautar sem hingað til hefur verið með sérhæfingu í tónlist en í haust hefst kennsla á brautinni með sérhæfingu í sviðslistum. Nemendahópur MA er fjölbreyttur og það þarf hugkvæmni til að koma til móts við hann. Það er ekki lengur hægt að ganga út frá því að í bóknámi sé hægt að bjóða upp á ódýrustu kennsluhættina, það þarf meiri leiðsagnarkennslu sem miðast við einstaklinga, það kom berlega fram í Kóvinu.

Félagslíf nemenda var öflugt, jafnvel meðan á lokun skólans stóð. Þá héldu nemendur góðgerðarviku og gáfu afraksturinn í Hollvinasjóð SAk. Fráfarandi stjórn skólafélagsins var fyrsta stjórnin sem skipulagði félagslíf í þriggja árganga skóla. Þau stóðu að vanda fyrir glæsilegri áfengis- og vímuefnalausri árshátíð og leikfélagið setti upp söngleikinn ,,Inn í skóginn“ en sýningar urðu færri en ella vegna samkomubannsins. Skólablaðið Muninn kom út báðar annir þrátt fyrir skólalokun á vorönn, og ritstjórnin fann leiðir til að dreifa blaðinu á hugvitssamlegan hátt til nemenda og halda n.k. útgáfuhóf á bílastæði MA. Nemendur tóku líka þátt í margvíslegri keppni sem tengist fræðum og vísindum og stóðu sig vel í stærðfræðikeppni og þýskuþraut og jafnframt í keppnum eins og Gettu betur og Morfís.  Í skólanum eru líka fjölmargir afburðanemendur í listgreinum og íþróttum. Allir þessir nemendur bera hróður skólans víða.