Menntaskólinn á Akureyri býður nemendum á framhaldsskólaaldri sem eru með annað móðurmál en íslensku velkomna í skólann. Í MA er unnið út frá sérstakri móttökuáætlun þegar nemendur af erlendum uppruna byrja í skólanum. Að því leyti sem tilefni er til gildir áætlunin einnig um íslenska nemendur sem dvalið hafa langdvölum erlendis og hafa litla kunnáttu í móðurmálinu.

Markmið áætlunarinnar er að tryggja markvissa, faglega og einstaklingsmiðaða móttöku nemenda af erlendum uppruna og styðja við námslega, félagslega og menningarlega aðlögun þeirra að skóla og samfélagi.

Upplýsingar veitir Jóhanna Björk Sveinbjörnsdóttir, verkefnastjóri íslenskubrúar, johanna@ma.is

NÁMIÐ VIÐ MA

Allt nám í skólanum fer fram á íslensku. Nemendur sem hafa náð góðri færni á málinu eru velkomnir á þá námsbraut sem þau hafa áhuga á.  Við inngöngu er miðað við færni nemandans til að stunda sjálfstætt nám við skólann og tekið er mið af Inntökuskilyrðum skólans við innritun. Skólinn miðar við getu á bilinu A2-B1 skv. Evrópska tungumálarammanum eða 2.- 3. stig ÍSAT í Aðalnámskrá grunnskólanna. ÍSAN (íslenska sem erlent mál) er í boði fyrir þau sem það þurfa.

Íslenskubrú
Boðið er upp á tveggja ára íslenskukennslu á Íslenskubrú fyrir byrjendur í íslensku.  Skólinn miðar við getu á bilinu A1-A2 skv. Evrópska tungumálarammanum eða Forstig eða 1. stigÍSAT í Aðalnámskrá. Námslok taka mið af námsframvindu hvers og eins.

UMSÓKNIR

Nemendur af erlendum uppruna sem stunda nám í grunnskóla á Íslandi sækja um skólavist líkt og aðrir grunnskólanemendur gegnum innritun.is og hefur nemandinn sjálfur og grunnskólinn umsjón með því.

Nemendur sem ekki hafa lokið grunnskóla á Íslandi sækja um á innritun.is líkt og aðrir nemendur.

Nánari upplýsingar á heimasíðu skólans

Umsækjendum er bent á að hafa samband við verkefnastjóra íslenskubrúar johanna@ma.is.

MÓTTAKA

Umsækjendum er boðið í móttökuviðtal  með verkefnastjóra íslenskubrúar og náms- og starfsráðgjafa á umsóknartímabilinu.

Í viðtalinu er auk umsækjanda, forsjáraðili (ef nemandi er yngri en 18) og starfsmaður grunnskólans sem þekkir vel til nemandans. Félagsráðgjafar geta einnig óskað eftir viðtali fyrir hönd skjólstæðinga sinna.

Farið er yfir námslega stöðu nemandans og veittar eru upplýsingar um skólann og námsframboð.

MA útvegar og greiðir túlkaþjónustu fyrir nemendur sína ef þörf krefur. Óski einstaklingur eftir túlkaþjónustu áður en skólavist er staðfest þarf viðkomandi sjálfur að útvega og greiða fyrir túlk.

Verkefnastjóri íslenskubrúar fylgir viðtölum eftir og kallar nemendur og forsjáraðila til sín ef þörf þykir á meðan á námstíma stendur.

Upphaf skólagöngunnar

Allir nýnemar mæta á skólasetningu og fá þar allar nauðsynlegar upplýsingar. Þeir nemendur sem hefja nám á íslenskubrú fá sérstaka kynningu á skólastarfinu, bæði hvað varðar húsnæði og þjónustuna í skólanum. Forráðafólk er velkomið með.

SKÓLASTARFIÐ, NÁMSMAT OG KRÖFUR

Við skólann starfar ÍSAN teymi sem samanstendur af verkefnastjóra brautarinnar, ÍSAN kennurum og skólasálfræðingi. Teymið hugar að hagsmunum nemenda með annað móðurmál en íslensku.  Að auki heldur stoðteymi skólans utan um þá nemendur sem þurfa sértækari stuðning.

Nemendafélag skólans er haft með í ráðum varðandi þátttöku þeirra í félagslífi skólans.

Sömu kröfur eru gerðar til nemenda af erlendum uppruna og annarra nemenda. Þeir geta fengið ýmiss konar aðstoð s.s. að taka próf í námsveri og fá lengdan próftíma og munnlega viðbót við almennt námsmat. Slíkt er unnið í samráði við kennara og námsráðgjafa. Í flestum tilfellum hafa þessir nemendur ekki lært norrænt tungumál og fá því undanþágu frá því námi, en taka aðra tungumálaáfanga í staðinn.

Námslok

Við námslok á íslenskubrú er gert ráð fyrir því að nemandi geti stundað sjálfstætt nám við íslenskan framhaldsskóla og náms- og starfsráðgjafi og verkefnastjóri leiðbeinir nemendum um áframhaldandi nám sé þess óskað.