Áhugi nemenda í MA á handknattleik var mikill um 1950
Áhugi nemenda í MA á handknattleik var mikill um 1950

Sannkallað handboltaæði hefur gripið um sig meðal landsmanna eftir frábæra frammistöðu íslenska karlalandsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í Ungverjalandi og Slóvakíu. Að mati íþróttaspekúlanta getur góður árangur liða og einstakra íþróttamanna á erlendum vettvangi skipt sköpum í því að viðhalda áhuga ungu kynslóðarinnar á tiltekinni íþróttagrein. Góðar fyrirmyndir eru mikilvægar. Þessu má snúa á haus. Þannig er áhugi ungra íþróttaiðkenda mikilvægur til að auka líkur á góðum árangri á erlendum vettvangi.

Fyrir 70 árum stóð Íþróttafélag Menntaskólans á Akureyri (Í.M.A.) fyrir handknattleiksmóti. Þegar þarna var komið sögu voru ekki nema rétt um 30 ár liðin frá því að Íslendingar kynntust íþróttinni. Fyrsta Íslandsmótið fór fram árið 1940 og Íslendingar spiluðu sinn fyrsta landsleik áratug síðar. Handknattleikssamband Íslands var stofnað árið 1957 og Íslendingar tóku fyrst þátt á stórmóti árið 1958. Óvíst er hverjar handboltafyrirmyndir nemenda í MA voru árið 1952 þegar skólamótið fór fram. Hitt er víst að áhugi þeirra á handbolta var til staðar, jafnvel mikill um 1950 ef marka má grein sem birtist í skólablaðinu Muninn í apríl 1952. Þá er úttekt greinarhöfundar á frammistöðu liða og einstaklinga í mótinu ekki síður skemmtileg aflestrar.

Það er oft með ýmsar íþróttagreinar, að þær ganga yfir eins og bylgjur — allir fá áhuga á sömu íþróttinni í einu — sá áhugi varir misjafnlega lengi og dvín loks svo, að örðugt er að halda uppi kappleikum. Þannig hefur verið með handknattleikinn hér í skólanum. Undanfarin ár hefur áhugi verið mjög mikill á handknattleik, svo að íþróttahús skólans hefur flest kvöld verið þéttskipað áhugasömum nemendum, sem varla hafa viljað heyra annað nefnt en að fara í handbolta.

KARLAFLOKKUR.

VI. bekkur. Þeir eru yfirleitt jafnir að getu, og ágætan liðsauka fengu þeir, þegar Ingi Þorsteinsson kom, en hann breiðir úr sér yfir nærri þveran salinn. Sigurður Emils er eldsnögg skytta. Hann og Ingi markmaður gætu orðið góðir, ef þeir nenntu að æfa. Hreggviður er einnig duglegur leikmaður.

V. bekkur. Liðið getur eflaust miklu meira, en skortir æfingu. Sumum þeirra hættir til að skjóta of mikið. Villa hefur farið mikið fram síðan í fyrra, hvernig sem á því stendur! Þeir hafa sæmilegar skyttur, en ættu samt að „spila“ meira.

IV. bekkur. Það vantar ekki dugnaðinn í piltana, en þeir verða að muna, að það dugar enginn „hazard“, heldur fyrst og fremst samleikur. Friðleifur, Sverrir og Vilhjálmur eru duglegustu menn liðsins. En markmann vantar þá. — En verið þið rólegri, IV. bekkingar, þá gengur ykkur enn betur!

III. bekkur. Þeir standa sig með ágætum, ef miðað er við efri bekkina, og standa þeim sízt að baki. Þeir eru allir mjög svipaðir, en hættir til að skjóta of mikið.

II. bekkur. Liðsmenn eru flestir líkir að getu. Allsæmilegir eru Óli, Haukur, Jakob og Jósef. Annars er of mikill hraði í leik liðsins, en hann ráða þeir ekki við sjálfir, og svo er skotið of mikið á lokað markið. Þeir þurfa að vera rólegri og „spila“ meira.

I. bekkur. Það var ekki við miklu að búast af þeim í þetta skipti, en I. bekkingar, æfið næsta vetur betur en þið hafið gert. Ykkur mun vissulega fara fram, ef þið haldið hópinn.

KVENNAFLOKKUR.

VI. bekkur. Þær hafa verið latar að æfa í vetur, og er frammistaðan í fullkomnu samræmi við það. Liðið gefur lítið tilefni til umsagnar. Skárst þeirra er Hanna Gabríels.

V. bekkur. Fáar þeirra hafa komið í handbolta í vetur fyrr en á þessu móti, svo að ekki er við miklu að búast. Þær hafa verið óheppnar í sumum leikjunum og eiga e. t. v. önnur úrslit skilið. Stefanía er bezt, og Gréta er dugleg, en skortir leikni.

IV. bekkur. Jóhanna Skafta er sú eina, sem eitthvað kveður að. Hún sýnir oft ágætan leik. Hinar aðstoða hana eftir beztu getu. Þær ættu samt ekki að treysta henni um of og reyna að skjóta meira sjálfar.

III. bekkur. Þær Halldóra og Anna Lilja bera leikinn uppi, en þeim hættir til að ryðja andstæðingum inn í markið á eftir knettinum. Hinar gætu gert meira, ef þær aðeins reyndu.

II. bekkur. Þetta lið hefur staðið sig með ágætum í mótinu, og er það fyrst og fremst að þakka þeim Steinku og Önnu. En „dugnaður“ þeirra gengur stundum fulllangt.

I. bekkur. Þær hafa ekki mikla sigurmöguleika í ár, en það koma tímar og koma ráð. Þetta eru ákveðnar og tápmiklar stúlkur, sem senda dómara orð í eyra, ef hann skiptir sér of mikið af gjörðum þeirra!!

A. K.

 

Heimild: Muninn 24. árgangur, 4. tbl.