- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Menningarlæsið fór til Siglufjarðar miðvikudaginn 25. september síðastliðinn. Bekkirnir sem fóru voru 1.F, 1.G, 1.H og 1.L. Rétt er að taka fram að nemendur stóðu sig með stakri prýði og voru kennarar sammála um að þessi árgangur hafi verið skólanum til sóma. Þau voru athugul, spurðu skemmtilegra spurninga og það var gaman að ferðast með þeim.
Nemendur fóru á fjórar stöðvar fyrir hádegi, þær voru Róaldsbrakki, Bátahúsið, Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar og Ljóðasetur Ísland. Í þjóðlagasetrinu kynntust nemendur langspili og íslenskri fiðlu og Þórarinn Hannesson söng fyrir nemendur í Ljóðasetrinu. Það má því segja að tónlist hafi einkennt hluta ferðarinnar. Hinn hlutinn sneri að fortíðinni og síldinni, og vissulega ómaði tónlistin þar eftir vel unnið dagsverk.
Í hádeginu fengum við afnot af kirkjulofti safnaðarheimilisins eins og undanfarin ár. Þar er alltaf gott að eiga notalega stund og við þökkum sr. Sigurði gestrisnina. Í stuttu máli gekk ferðin vel, veðrið var spaklegt, heimamenn tóku höfðinglega á móti okkur og nemendur jafnt sem kennarar nutu tilbreytingarinnar frá kennslustofunni.
Aðalbjörg, Anna Sigga, Krissi og Sigga, kennarar í menningarlæsi.