U18 landslið Íslands í íshokkí. Myndin er fengin af heimasíðu Skautafélags Akureyrar.
U18 landslið Íslands í íshokkí. Myndin er fengin af heimasíðu Skautafélags Akureyrar.

Í skólanum er fjölmargt afreksfólk í íþróttum sem ber hróður íþróttafélaga sinna víða, og ekki síður skólans. Nú í ársbyrjun hafa margir nemendur verið á faraldsfæti í keppnum t.d. í landsliði Íslands í íshokkí, yngri en 18 ára, æfingaferð fyrir unglingalandslið í golfi, keppni í snocrossi, æfingar hjá landsliði karla í knattspyrnu U17 og U19 og kvenna í U19. Og er þá örugglega ekki allt upp talið. Og nokkur hafa líka hlotið viðurkenningar innan félaga sinna. Ef það eru fleiri væri gaman að heyra af því.

Skautakona LSA 2023 er Freydís Jóna Jing Bergsveinsdóttir 2FL.

Magnús Dagur Jónatansson 2G og Lydía Gunnþórsdóttir 2FL hlutu Böggubikarinn  en hann er veittur einstaklingum, pilti og stúlku, á aldrinum 16-19 ára sem þykja efnileg í sinni grein en ekki síður mjög sterk félagslega. Einstaklingum sem eru til fyrirmyndar á æfingum og í keppnum og eru bæði jákvæð og hvetjandi.

Íshokkíkona Skautafélags Akureyrar árið 2023 er Amanda Ýr Bjarnadóttir 2H, leikmaður meistaraflokks kvenna. Á heimasíðu SA segir að Amanda sé ein af lykilleikmönnum meistaraflokks og er hluti af fyrirliðateyminu þar. Hún er metnaðarfull, vinnusöm og góður liðsfélagi og er félagi sínu sannarlega til sóma bæði á ísnum og utan hans. Amanda er einnig fyrirliði í U18 landsliði stúlkna sem vann silfurverðlaun á HM í deild llb í Búlgaríu. Aðalheiður Ragnarsdóttir 1T var valin besti varnarmaður mótsins.