Aldís Kara (tv) og Júlía Rós Íslandsmeistarar. Myndir: Skautasamband Íslands
Aldís Kara (tv) og Júlía Rós Íslandsmeistarar. Myndir: Skautasamband Íslands

Skautamót Reykjavíkurleikanna fór fram um nýliðna helgi. Samhliða Leikunum voru afhentir Íslandsmeistaratitlar fyrir árið 2020 hjá Skautasambandi Íslands. Ákvörðun þessa efnis var tekin í kjölfar aflýsingar Íslandsmóts sem fara átti fram í nóvember sl. Verðlaunaafhending var því tvöföld. Tveir nemendur úr MA tóku þátt í mótinu, þær Júlía Rós Viðarsdóttir í 1T og Aldís Kara Bergsdóttir í 2T. Þær stóðu sig með stakri prýði og hömpuðu Íslandsmeistaratitli, hvor í sínum flokki.

Júlía Rós sigraði í Junior-flokki. Ellefu stiga forskot hennar eftir fyrri dag keppninnar lagði grunninn að glæsilegum sigri. Hún gerði sér lítið fyrir og setti persónulegt stigamet, krækti sér í samtals 128,37 stig. Sannarlega efnileg skautakona hún Júlía Rós. Aldís Kara sigraði í Senior-flokki auk þess sem hún vann gull á Reykjavíkurleikunum. Aldís hlaut einnig Úrslitaverðlaun RIG (Best Results) en þau eru veitt stigahæsta skautara í efsta flokki á mótinu. Aldís Kara setti Íslandsmet í sínum flokki, bæði í stuttu og frjálsu prógrammi og bætti þannig met frá árunum 2016 og 2018.

Við óskum þeim Aldísi Köru og Júlíu Rós sem og Skautafélagi Akureyrar til hamingju með glæsilegan árangur.

Nánar má lesa um Skautamót Reykjavíkurleikanna á heimasíðu Skautasambands Íslands iceskate.is.