Andri Snær Magnason
Andri Snær Magnason

Andri Snær Magnason heimsótti MA þriðjudaginn 29. október. Hringt var á Sal fyrir alla nemendur og starfsfólk skólans og er óhætt að segja að áheyrendur hafi lagt við hlustir. Þetta er í að minnsta kosti þriðja skipti sem Andri Snær kemur í MA; fyrst 1996, þá ungt skáld sem las upp úr ljóðabókinni Bónusljóð, því næst 2006 þegar hann sagði frá bók sinni Draumalandinu og baráttu sinni gegn stóriðjuáformum stjórnvalda og nú mætti hann með nýjustu bók sína Um tímann og vatnið sem kom út á dögunum. Titill bókarinnar er lýsandi fyrir efni hennar; hann fjallar um þær afdrífaríku breytingar sem eru að verða á vatnsbúskap heimsins og reynir að gera þær raunverulegri fyrir lesendum með staðreyndum og sögum, en líka áminningu um hversu stutt er milli kynslóða og hversu mikið getur breyst á stuttum tíma. Nemendur fengu tækifæri til að spyrja í lok erindisins, og þeir veltu m.a. fyrir sér hvort það væru einungis raunvísindamenn sem gætu lagt hönd á plóg við að finna nýjar lausnir eða hvaða hlutverki hug- og félagsvísindafólk gæti gegnt, hvort væri árangursríkara til breytinga í umhverfismálum að vera svartsýn á framtíðina eða bjartsýn á möguleikana o.fl. Andri Snær brýndi nemendur á að taka málin í sínar hendur og sagði menntun sjaldan hafa haft þýðingarmeira hlutverk, hún snerist ekki bara um að fá gott starf heldur að lagfæra það sem úrskeiðis hefði farið á 20. öldinni.