Átta einstaklingar úr Skátafélaginu Klakki hlutu forsetamerkið. Myndin er fengin af heimasíðu Klakks…
Átta einstaklingar úr Skátafélaginu Klakki hlutu forsetamerkið. Myndin er fengin af heimasíðu Klakks.

Þann 2. nóvember sl. veitti frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, 26 skátum forsetamerkið. Þetta er fjölmennasti hópurinn sem hlýtur forsetamerkið síðan árið 2016. Forseti Íslands er verndari skátahreyfingarinnar og veitir forsetamerkið þeim rekkaskátum (16-18 ára) sem hafa stundað metnaðarfullt rekkaskátastarf.

Þrír MA-ingar hlutu forsetamerkið að þessu sinni, þau Anton Bjarni Bjarkason 2IL, Fríða Björg Tómasdóttur 3T og Snædís Hanna Jensdóttir 2X, Skátafélaginu Klakki. Alls voru 8 frá Skátafélaginu Klakki á Akureyri sem hlutu merkið en hin 5 eru nemendur við VMA. Fríða Björg Tómasdóttir flutti einnig ávarp ásamt Kristófer Njálssyni, Skátafélaginu Mosverjum, þar sem þau sögðu frá skátaferli sínum og þeim verkefnum sem þau unnu að í tengslum við forsetamerkisvegferðina. Ræðu Fríðu og Kristófers má finna hér: 26 sæmd forsetamerkinu á 60 ára afmæli þess | Skátarnir

Í forsetamerkinu sameinast gildi skátahreyfingarinnar um persónulegar framfarir einstaklingsins og þess að gera sitt besta samfélaginu til heilla. Vegferðin að forsetamerkinu er 2-3 ára verkefni sem hvetur skátana til persónulegs vaxtar í gegnum 24 fjölbreytt verkefni sem skátarnir þurfa að vinna að (sjá 26 sæmd forsetamerkinu á 60 ára afmæli þess | Skátarnir)

Í ræðu sinni sagði Fríða m.a.: 

,,Ég hef oft verið spurð hvað það er eiginlega sem við gerum í skátunum. Fólk virðist halda að við séum að kveikja eld og hnýta hnúta alla fundi en öll hér inni vitum við að skátastarfið er svo miklu meira en það. Skátahreyfingin er eina æskulýðshreyfingin, svo ég best viti, sem er með eitt inntökuskilyrði: Að leggja sitt af mörkum til þess að bæta samfélagið. Þótt við kveikjum vissulega marga elda þá áttar maður sig á því að skátastarfið snýst ekki bara um eldinn sjálfann, heldur um það að kveikja eld innra með sér og öðrum. Að verða forvitin, þrautseig, opin fyrir ævintýrum og tilbúin að takast á við áskoranir. Núna, þegar ég stend hér í dag, finnst mér eins og þessi eldur logi aðeins skærar. 

Nú veit ég ekki með ykkur en ég ætla að vera alveg hreinskilin og segja að ég byrjaði ekki í skátunum vegna einhverjar djúprar köllunar til að þjóna samfélaginu eða bjarga heiminum, heldur einfaldlega vegna þess að vinir mínir voru í skátunum og þetta virtist skemmtilegt. Ég held að flest okkar geti samt verið sammála um að það hafi kannski ekki alveg verið fyrsti dagurinn sem breytti lífinu, en einhvern veginn, án þess að maður tók eftir því fór þetta starf að festa rætur í hjartanu mans og varð að gríðarstórum hluta af manni. Það hafa verið ótal skipti þar sem ég hef hugsað ,,af hverju er ég að gera þetta“ hvort sem ég hafi verið í skafrenningi að reyna að tjalda eða á landsmóti blaut alveg inn að beini.

Það er eitthvað alveg einstakt við það hvað skátarnir draga fram það besta í fólki. Maður hittir fullt af mismunandi einstaklingum í skátunum en ég held að ég geti fullyrt það að fólkið í skátunum er eitt það besta og skemmtilegasta sem ég hef nokkurn tímann hitt. Ég hef bæði eignast nýja vini og tengst þeim ég átti fyrir á hátt sem erfitt er að útskýra. Þetta er fólkið sem hlær með manni, stundum að manni en hjálpar manni samt alltaf á fætur sem minnir okkur á það hvers vegna þetta er allt þess virði. "

Við óskum Antoni Bjarna, Fríðu Björgu og Snædísi Hönnu, auk hinna 23, innilega til hamingju með viðurkenninguna.