Árshátíð MA 2025 21. nóvember
Árshátíð MA 2025 21. nóvember

Undirbúningur fyrir árshátíð Menntaskólans á Akureyri næsta föstudagskvöld stendur nú sem hæst. Skólafélagið Huginn hefur veg og vanda af skipulagi og framkvæmd hátíðarinnar. Að venju verður slegið upp veislu í Íþróttahöllinni undir yfirskriftinni „Töfrar sirkusins“ og ljóst að skólastarf fram að helgi mun að einhverju leyti litast af vinnunni sem fylgir slíkum undirbúningi. Meðal þess sem nemendur hafa á sinni könnu er að skreyta Höllina, leggja á borð og æfa sig í gömlu dönsunum svo eitthvað sé nefnt. En hvernig lýsa nemendur viðburði eins og árshátíð MA? Drepum niður í lýsingu á heimasíðu skólafélagsins.

Það er óhætt að segja að árshátíðin sé stærsti viðburður ársins. Menntskælingar taka yfir Íþróttahöllina í eitt kvöld og skemmta sér eins og enginn er morgundagurinn! Gómsætur matur og hellingur af landsþekktu tónlistarfólki. Það þyrfti kraftaverk til þess að klúðra þessu. Auk þess eru TóMA, PríMA og SauMA með skemmtiatriði sem toppa sig alltaf á milli ára. Mesta stemningin er þó ekki í aðalsalnum, hana er að margra mati að finna í gömlu dönsunum. Þar getur maður auðveldlega gleymt sér og dansað fram á nótt.

Það sem gerir árshátíðina sérstaka er að hún er öll skipulögð af nemendum, frá byrjun til enda, svo að það er stór hópur sem er alla vikuna í höllinni til að gera og græja. Hópurinn sinnir öllu á milli himins og jarðar og vinnur hörðum höndum svo að hægt sé að halda ógleymanlega árshátíð í lok vikunnar.

Eitt kvöld, endalausar góðar minningar.