Hluti verðandi útskriftarnema í þjóðbúningum
Hluti verðandi útskriftarnema í þjóðbúningum

Árshátíð Menntaskólans á Akureyri var haldin með pompi og prakt síðastliðin föstudag. Skólafélagið og aðrir nemendur skólans taka höndum saman við framkvæmd og skipulagningu og sjá til þess að árshátíðin sem sé sem glæsilegust og einnig að hún sé áfengis og vímuefnalaus.

Þema kvöldsins var suðræn veisla og voru skreytingar samkvæmt því, það voru síðan hin ýmsu undirfélög sem sáu um skemmtiatriði undir borðhaldi, en Bautinn sá svo um veitingar. Heiðursgestur árshátíðarinnar var Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis og gamall MA stúdent.

Gömlu dansarnir á árshátíð MA

Þessi árshátíð markaði ákveðin tímamót, en hún er síðasta árshátíðin sem verður á meðan eru fjórir árgangar í skólanum. Það var einnig eftirtektarvert að hafa svo marga nemendur í þjóðbúningum, en þar sem tveir efstu árgangarnir eru á lokaári voru um 350 manns skrýddir þjóðbúningum.

Eftir borðhald og skemmtiatriði voru margir tónlistarmenn sem stigu á stokk og spiluðu fyrir dansi, á neðri hæðinni komu fram Stuðmenn, Úlfur Úlfur, Jói P og Króli, og svo Huginn. Á efri hæðinni spiluðu Þuríður og Hásetarnir undir gömlu dönsunum, sem voru vel sóttir, enda æfa allir nemendur gömlu dansana á vikunum fyrir árshátíðina. Það voru margar vinnustundir sem lágu að baki árshátíðinni og því mikil ánægja með hversu vel tókst til.

Fleiri myndir er að finna á Facebook síðu MA.