Stúdentar 2019
Stúdentar 2019

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í morgun, þann 17. júní, í 139. sinn og 330 stúdentar brautskráðir.

Á meðan gestir flykktust í Íþróttahöllina lék Pétur Smári Víðisson á gítar, en hann er nýr konsertmeistari MA.

Úr ræðu skólameistara

Jón Már Héðinsson skólameistari hóf mál sitt á að nefna þessi tímamót í MA þar sem tveir árgangar voru brautskráðir, síðasti fjórði bekkurinn og fyrsti þriðji bekkurinn. Hann sagði alla hafa verið minnta á hvað lífslínan sem við þræðum líf okkar eftir er örmjó þegar nemandi skólans slasaðist mjög alvarlega á dimissio. En gæfan var með í för og betur fór en á horfði því stúlkan brautskráðist með bekkjarfélögum sínum í dag. Skólameistara var ofarlega í huga þakklæti til þeirra sem brugðust við á slysstað og eftir slysið. Hann vildi sérstaklega þakka jákvætt og hughreystandi viðmót frá foreldrum nemandans. Slys gera ekki boð á undan sér og af þeim ber að draga lærdóm og það ætlum við að gera í MA, sagði hann.

Skólameistari fjallaði um námskrána sem nú er að að fullu búið að taka upp og miðast við þriggja ára nám til stúdentsprófs. Helmingur námsins er sameiginlegur kjarni, hinn helmingurinn er val nemenda eftir brautum, fjórar hefðbundnar brautir en nýjung er kjörnámsbraut sem hefur sama kjarna og hinar en gefur kost á fjölbreyttri sérhæfingu. Nú þegar er hægt að sérhæfa sig í tónlist og stefnt er að fleiri sérsviðum eins og í sviðslistum, forritun, heilbrigðisgreinum og umhverfisfræðum. ,,Allt nám er skapandi og mikilvægt er að MA-ingurinn hafi áræði til að nýta sköpunarkraft sinn, hagnýta ímyndunaraflið og móta þannig Ísland tuttugustu og fyrstu aldarinnar." Hann sagði bekkjarkerfinu vera haldið en það væri sveigjanlegra en áður og hægt að ljúka námi á þremur, þremur og hálfu eða fjórum árum. Áfram verður þó brautskráð 17. júní. Í heimi þar sem persónuleg samskipti verða sífellt minni og æ fleiri verða fangar tækninnar eru kostir bekkjakerfisins mikilvægir. Hann nefndi að þegar spurt væri hvernig MA ætlaði að búa nemendur undir fjórðu iðnbyltinguna væri svarið: ,,Með einkunnarorðum skólans og skólasýn. Það þarf að efla enn frekar með nemendum rökhugsun, félagsþroska og samskiptahæfni, seiglu og ekki síst siðvit."

Skólameistari sagði nemendahóp MA fjölbreyttan, og að ungt fólk væri undir mikilli samfélagslegri pressu. Það þyrfti því hugkvæmni til að koma til móts við þennan hóp, en allir ættu að geta náð árangri sýndu þeir áhuga og seiglu. Ekki væri lengur hægt að ganga út frá því að í bóknámi væri hægt að bjóða bara upp á fyrirlestra yfir stórum hópum heldur þyrfti meiri leiðsagnarkennslu, sem líkist verklegri kennslu. Dæmin sýndu að sá sem ekki kynni skil á hugtökum og gæti illa komið þeim frá sér svo skiljist, væri sjálfum sér og öðrum jafn hættulegur og iðnaðarmaður sem fengi ekki verklega kennslu á sín verkfæri. Nám er þroskasamtal til skilnings, þar sem þekking tengd saman býr til nýja hugsun, nám.

Í vetur voru nemendur skólans 736. Nemendur á fyrsta ári voru 190, á öðru ári 205, á þriðja ári 187, á fjórða ári 154, verðandi stúdentar eru 330. 

Hæstu einkunn í fyrsta bekk hlaut Rakel María Ellingsen Óttarsdóttir, 9,5  Hæstu einkunn í öðrum bekk hlaut Birta Rún Randversdóttir, 10,0  Hæstu einkunn í þriðja bekk hlaut Katrín Hólmgrímsdóttir, 9,9  Hæstu einkunn í fjórða bekk hlaut Hrund Óskarsdóttir, 9,8 

Þetta eru meðaleinkunnir þessa skólaárs, stúdentsprófseinkunn er meðaltal allra einkunna öll árin. Meðaleinkunn á stúdentsprófi í fjórða bekk var 7,64 og meðaleinkunn á stúdentsprófi í þriðja bekk var 7,62. Dux í fjórða bekk, með hæstu einkunn á stúdentsprófi, er Hugrún Ingólfsdóttir með 9,66 og í þriðja bekk Katrín Hólmgrímsdóttir með 9,86. Semidux í fjórða bekk er Birkir Freyr Andrason með 9,64 og í þriðja bekk Unnur Lilja Arnarsdóttir 9,56.

Skólameistari þakkaði starfsfólki vel unnin störf og nefndi að skólinn hefði komið vel út úr könnuninni Stofnun ársins. Þar kæmi fram að starfsfólk MA væri ánægt og bæri traust til samstarfsfólks og stjórnenda. Hann fjallaði líka um mikilvægi félagslífs í skóla og þess að nemendur stýrðu því og skipulegðu sjálfir, þetta væri í raun verkleg æfing í grunnþáttum menntunar. Nemendur legðu áherslu á að félagslífið fengi rými í skólastarfinu og stjórnendur skólans væri sammála því. Hann nefndi ýmsa viðburði á árinu; Skólafélagið Huginn hefði sem fyrr stýrt glæsilegri vímulausri árshátíð, Leikfélag MA setti upp sýninguna Útfjör af miklum metnaði, Gettu betur liðið og Morfís liðið hefði farið í undanúrslit, félagar í LMA tóku þátt í framhaldsskólakeppninni, Leiktu betur og unnu. Skólafélagið stóð fyrir söngkeppni og stjórn Munins gaf út tvö skólablöð, jafnréttisráð og FEMMA störfuðu ötullega, nemendur tóku þátt í menntabúðum og héldu ráðstefnu um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Auk þessa voru haldnar fjölmennar kvöldvökur, haldin góðgerðarvika, þar sem nemendur gáfu afraksturinn til SÁÁ, það voru haldnir fjörugir söngsalir og svo má lengi telja.  Nemendur skólans tóku auk þessa þátt í margvíslegri keppni sem tengjast fræðum og vísindum. Skólinn átti t.d. fjóra keppendur í norrænu stærðfræðikeppninni og nemandi á málabraut fékk viðurkenningu í smásagnakeppni í ensku. Ótaldir væru fjölmargir afburðanemendur í ýmsum listgreinum og landsliðsfólk í íþróttum í hópi nemenda.

Fulltrúar afmælisárganga tóku því næst til máls og var hver ræðan annarri betri.

Fulltrúi 70 ára stúdenta var Ólafur Haukur Árnason.  Fulltrúi 60 ára stúdenta var Gunnar Ragnars.  Fulltrúi 50 ára stúdenta var Samúel J. Samúelsson.  Fulltrúi 40 ára stúdenta var María Björk Ingvadóttir.  Fulltrúi 25 ára stúdenta var Bolli Pétur Bollason.  Fulltrúi 10 ára stúdenta var Birna Pétursdóttir. Fulltrúi 25 ára stúdenta greindi frá úthlutun úr Uglusjóði, hollvinasjóði MA.

Skólameistari brautskráði þessu næst 330 nýstúdenta, fyrst fjórða bekk og því næst þriðja bekk. Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir lék frumsamið verk á píanó milli brautskráningar árganganna.  Margir hlutu verðlaun og viðurkenningar fyrir árangur sinn í námi og áhrif á skólalífið, sbr. lista hér að neðan.

Að brautskráningu lokinni flutti Kolbrún Ósk Jóhannsdóttir fráfarandi formaður skólafélagsins Hugins ávarp nýstúdenta.

Að lokum flutti skólameistari nýstúdentum kveðjuorð, hann þakkaði þeim samstöðu og góðan undirbúning í vetur svo að vel mætti fara að tveir árgangar kveddu skólann sama dag. Hann ítrekaði mikilvægi kveðjustunda og rækt vinabanda og hvatti þá til að trúa á drauma sína, seiglu og hæfileika. Hann sagðist  trúa því að einkunnarorð skólans hafi mótað stúdentana og að þeir ræktuðu þau áfram með sér og þau hafi eflt með þeim kjark til að velja og hafna.

Athöfninni lauk á því að allir sungu skólasöng MA, Undir skólans menntamerki.

 Verðlaun og viðurkenningar:

Fjórði bekkur:

  • Hæsta einkunn á stúdentsprófi í fjórða bekk, sem er meðaltal einkunna öll fjögur skólaárin, hlaut Hugrún Ingólfsdóttir, 9,66. Hún var dux og hlaut fyrir það gulluglu frá skólanum. Hún fékk Íslenskuverðlaun MA og verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ferðamálafræði (gjöf frá A4), spænsku (gjöf frá SBA) og sálfræði.
  • Næsthæstu einkunn hlaut Birkir Freyr Andrason, 9,64,  en hann hlaut fyrir árangur sinn Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði frá Íslenska efnafræðifélaginu, líffræði frá Sjúkrahúsinu á Akureyri og stærðfræði frá Íslenska stærðfræðifélaginu.
  • Andri Þór Stefánsson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði frá Norðurorku og stærðfræði frá Íslenska stærðfræðifélaginu.
  • Benedikt Stefánsson hlaut Stjörnu-Odda verðlaunin frá Vísindafélagi Norðlendinga fyrir árangur sinn í stjörnu- og stjarneðlisfræði.
  • Elín Kata Sigurgeirsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum.
  • Friðrik Valur Elíasson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði frá Norðurorku og stærðfræði frá Íslenska stærðfræðifélaginu.
  • Hlynur Aðalsteinsson hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur í íþróttum. Hlynur brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,25.
  • Hrund Óskarsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku frá danska sendiráðinu og líffræði frá Sjúkrahúsinu á Akureyrar. Hrund var með óaðfinnanlega skólasókn allar annirnar í skólanum. Hún brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,57. Hún lauk auk þess framhaldsprófi í píanóleik fyrr í vor.
  • Höskuldur Logi Hannesson hlaut Stjörnu-Odda verðlaunin frá Vísindafélagi Norðlendinga fyrir árangur sinn í störnu- og stjarneðlisfræði. Hann fékk einnig verðlaun frá þýska sendiráðinu fyrir framúrskarandi árangur í þýsku.
  • Katrín Ósk Kristinsdóttir hlaut verðlaun frá Þórarinssjóði fyrir framúrskarandi árangur í frönsku. Katrín brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,1.
  • Kolbrún Ósk Jóhannsdóttir hlaut verðlaun frá danska sendiráðinu fyrir framúrskarandi árangur í dönsku og gjöf frá skólanum fyrir trausta forystu og stjórn í félagsmálum.
  • Lísbet Perla Gestsdóttir hlaut verðlaun úr Brynleifssjóði fyrir framúrskarandi árangur í sögu.
  • Marit Alavere hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í spænsku frá SBA.
  • Ólöf Rún Pétursdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í ensku og félagsfræði.
  • Sara Atladóttir brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,06.
  • Sigurrós Halldórsdóttir hlaut verðlaun úr Hjaltalínssjóði fyrir framúrskarandi árangur í íslensku og ensku, verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í spænsku frá SBA og verðlaun úr Þórarinssjóði fyrir framúrskarandi námsárangur í frönsku frá franska sendiráðinu. Sigurrós brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,2.

Þriðji bekkur:

  • Hæsta einkunn á stúdentsprófi í þriðja bekk, sem er meðaltal einkunna öll þrjú skólaárin, hlaut Katrín Hólmgrímsdóttir, 9,86. Hún var dux og hlaut fyrir það gulluglu frá skólanum. Hún fékk Íslenskuverðlaun MA og verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku, eðlisfræði, líffræði, stærðfræði og þýsku. Einnig fékk hún Raungreinaverðlaun Háskólans í Reykjavík. Katrín var með óaðfinnanlega skólasókn allar annir sínar í skólanum.
  • Næsthæstu einkunn hlaut Unnur Lilja Arnarsdóttir, 9,56. Hún hlaut Íslenskuverðlaun MA og verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í dönsku frá danska sendiráðinu og ensku og verðlaun frá Þórarinssjóði fyrir framúrskarandi árangur í frönsku.
  • Amanda Guðrún Bjarnadóttir brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,1.
  • Ágústa Eyjólfsdóttir brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,2.
  • Birna Eyfjörð Þorsteinsdóttir lauk framhaldsprófi í píanóleik fyrr í vor og fékk blóm frá skólanum fyrir tónlistarflutning sinn við athöfnina.
  • Edda Guðný Örvarsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í þýsku frá þýska sendiráðinu.
  • Eva María Sigurþórsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í eðlisfræði og verðlaun frá Þórarinssjóði fyrir framúrskarandi árangur í frönsku. Eva María brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,2.
  • Gísli Laufeyjarson Höskuldsson fékk gjöf fyrir störf sín í þágu félagslífs skólans.
  • Heiðbjört Anna Guðmundsdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum.
  • Hinrik Guðjónsson hlaut verðlaun úr Brynleifssjóði fyrir framúrskarandi árangur í sögu.
  • Hugrún Erna Erlingsdóttir fékk blómvönd frá skólanum.
  • Jón Smári Hansson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í íþróttum.
  • Kara Hildur Axelsdóttir brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,08.
  • Líney Lilja Þrastardóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi námsárangur á stúdentsprófi. Hún brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,37.
  • María Bogadóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í félagsfræði og sálfræði. Hún brautskráðist með ágætiseinkunn 9,24.
  • Ólafur Már Þrastarson hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í efnafræði frá Íslenska efnafræðifélaginu. Hann brautskráðist með ágætiseinkunn, 9,02.
  • Rakel Anna Boulter hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í heimspeki.
  • Sigrún Kjartansdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í heimspeki.
  • Símon Birgir Stefánsson hlaut Menntaverðlaun Háskóla Íslands fyrir framúrskarandi árangur á stúdentsprófi og eftirtektarverðan árangur í leiklist og félagsstörfum. Símon brautskráðist með ágætiseinkunnina 9,07.
  • Stefanía Sigurdís Jóhönnudóttir hlaut verðlaun fyrir störf sín að jafnréttismálum innan og utan skólans.
  • Sæunn Emilia Tómasdóttir hlaut verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í heimspeki.