Brynjólfur Skúlason ásamt húsbandinu á sviðinu í Hofi. 
Mynd: Sverrir Páll Erlendsson
Brynjólfur Skúlason ásamt húsbandinu á sviðinu í Hofi.
Mynd: Sverrir Páll Erlendsson

Í gær, fimmtudaginn 30. janúar, fór fram hin árlega söngkeppni Menntaskólans á Akureyri í Menningarhúsinu Hofi. Þeir sem lögðu leið sína í Hof til að hlusta og horfa urðu ekki fyrir vonbrigðum og stemningin í húsinu var góð. Mjög svo frambærilegir flytjendur fluttu atriðin sín undir styrkri stjórn húsbandsins sem skipuð var nemendum skólans.

Þegar upp var staðið höfðu þrjú atriði hlotið náð fyrir augum dómnefndar. Þannig er Brynjólfur Skúlason sigurvegari söngkeppninnar í ár, Emilía Ýr Bryngeirsdóttir varð í öðru sæti og í þriðja sæti urðu Aron Snær Eggertsson og Elísa Þóreyjar-Rafnsdóttir. Atriði þeirra Arons og Elísu var jafnframt kosið vinsælasta atriði kvöldsins.

Brynjólfur mun keppa fyrir hönd skólans í Söngkeppni framhaldsskólanna í vor. Við óskum sigurvegurum gærkvöldsins til hamingju með frammistöðuna sem og öllum sem tóku þátt eða komu að framkvæmd keppninnar með einum eða öðrum hætti.