Kolbrún Halldórsdóttir
Kolbrún Halldórsdóttir

Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.

Kolbrún Halldórsdóttir, íslenskukennari.

Kennslan gengur afskaplega vel frá mínu sjónarhorni séð á meðan þessu blessaða samkomubanni stendur. Ég reyni mitt besta að aðstoða alla eftir þörfum, bý til talglærur eins og enginn sé morgundagurinn og fer yfir verkefni nótt sem dag. Við höfum rekið okkur á ýmsa rafræna galla sem hafa gert vinnuna tímafrekari fyrir vikið, en svo lengi lærir sem lifir!

Mér finnst þetta samt sem áður skemmtilegt verkefni. Þó ótrúlegt sé þá finnst mér ég ná betri tengingu við nemendur og þau fá smá innsýn í mitt persónulega líf. Ég sýndi nemendum mínum til dæmis, á einum fjarfundinum, þvottafjallið sem bíður mín í stofunni, óhreinu diskana sem liggja út um allt og virðast aldrei ætla að rata réttu leið í uppþvottavélina og annað eins fjall af óhreinum þvotti sem bíður rólegur eftir sínum tíma í þvottavélinni. Þau skilja þá kannski vonandi betur af hverju mér tókst ekki að fara yfir 80 stílæfingar sama kvöld og þeim var skilað.