Líf og fjör á degi íslenskrar tungu í MA
Líf og fjör á degi íslenskrar tungu í MA

Dagur íslenskrar tungu var fyrst haldinn hátíðlegur árið 1996. Hugmyndin þá var að beina athygli að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og menningu. Allar götur síðan hafa nemendur og starfsfólk á öllum skólastigum gert sér glaðan dag á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar, nýtt vettvanginn til að minna á mikilvægi íslenskrar tungu og glaðst með söng og upplestri.

Dagurinn gaf því nemendum og starfsfólki MA ástæðu til að koma saman á Sal og njóta dagskrár í boði íslenskukennara og nemenda. Auk fróðleiks um skáld og ljóðagerð úr ranni kennara lögðu nemendur sitt af mörkum í formi upplesturs og tónlistarflutnings. Dagskráin var fjölbreytt, allt frá kveðskap Rósu Guðmundsdóttur og Gríms Thomsen til ljóða Kristjáns frá Djúpalæk og Bríetar Ísisar Elfar.

Aðalbjörg Bragadóttir, Einar Aðalsteinn Brynjólfsson, Eyrún Huld Haraldsdóttir, Gunnhildur Ottósdóttir, Kolbrún Ýrr Bjarnadóttir og Sigríður Steinbjörnsdóttir stýrðu dagskránni. Bjarki Hrafn Ólafsson og Bríet Björk Pálsdóttir í 3V lásu upp ljóð. Í lokin sungu allir saman nokkur vel valin lög við píanóundirleik Eysteins Ísidórs Ólafssonar í 3U.