Dagur íslenskrar tungu var laugardaginn 16. nóvember nk. Nánast alltaf hefur verið hringt á Sal í tilefni dagsins og ýmist verið boðið upp á gestafyrirlesara eða heimatilbúna dagskrá.

Að þessu sinni var ekki Salur, enda stutt síðan að Andri Snær Magnússon heimsótti skólann og talaði á Sal, heldur báðu íslenskukennarar aðra kennara að líta í eigin barm og leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að kveikja neista hjá nemendum. Á þann hátt mætti virkja máltækið „allir kennarar eru móðurmálskennarar“ því nemendur hafa gott af því að átta sig á að íslenskan er mál okkar allra.

Hugmyndin var að kennarar hæfu fyrstu kennslustund mánudaginn 18. nóvember með því að nefna Dag íslenskrar tungu og tækju nokkrar mínútur í spjall sem tengist tungumálinu. Það er spennandi að vita hvaða líflegu umræður hafa orðið um móðurmálið í fyrstu tímum dagsins.