Snorri Már Vagnsson
Snorri Már Vagnsson

Nemendur og starfsmenn MA deila upplifunum sínum af námi og kennslu í samkomubanni með lesendum ma.is.

Snorri Már Vagnsson heiti ég og er nemandi í 3.H.

 Á tímum COVID-19 hefur skólahald í MA heldur betur skorðast til, bæði nám og félagslíf. Nám fer að öllu leyti fram í heimahúsum gegnum netið. Þetta hefur auðvitað marga kosti og galla í för með sér; ekki er jafn auðvelt að hnippa í kennara og maður myndi venjulega gera í tíma, en kennararnir í MA eru þó að standa sig prýðisvel í að svara tölvupóstum sem allra fyrst og senda okkur innihaldsríkar og vel gerðar verkefnalýsingar og vikuáætlanir. Annar leiðinlegur partur, og sá versti að mínu mati, er að geta ekki hitt félaga sína á hverjum degi. Félagslífið í MA var algjör vendipunktur í vali mínu á honum sem framhaldsskóla, svo að þurfa að sinna öllu námi heima án þess að hafa kvöldvökur, löngu, söngsali eða gleðidaga er alveg frekar súrt.

Nemendur á þriðja ári eru nú að missa út síðustu vikurnar á framhaldsskólaferli sínum og þykir mörgum það eflaust vera rán á hábjörtum degi. Næstum allt sem viðkemur næstu vikum er þakið óvissu, framlengt samkomubann gæti sett stein í veg útskriftarferðar, lokaprófa og jafnvel útskriftarinnar. Þó eru MA-ingar, nemendur jafnt sem kennarar, að standa sig prýðisvel í þessu öllu saman. Lífið hefur sinn gang og ekki borgar sig að dvelja í því sem hefði getað orðið.

Staðan eins og hún er í dag lætur mann svo sannarlega sjá hversu mikilvægt fólkið í kring um okkur er, vinirnir, kennararnir og jafnvel rakarinn þinn. En eftir nóttina kemur dagur og við munum eflaust líta um öxl í framtíðinni og fyllast þakklæti í garð skólastjórnenda og kennara fyrir að vera með allt svona algjörlega á hreinu í krísunni sem gekk yfir vorið 2020. Í bili verðum við þó að halda okkur við efnið og vera í núinu.