Þorgeir Tryggvason var nemandi við MA árin 1985-1988
Þorgeir Tryggvason var nemandi við MA árin 1985-1988

Þorgeir Tryggvason er þúsundþjalasmiður á sviði lista og menningar. Hann er meðlimur í hljómsveitinni Ljótu hálfvitunum þar sem hann leikur á hin ýmsu hljóðfæri, semur tónlist fyrir leiksýningar og fjallar um bækur á sjónvarpsskjánum svo eitthvað sé nefnt. Þorgeir var nemandi í MA árin 1985–1988. Hann tók fyrsta árið í framhaldsdeild Gagnfræðaskólans á Húsavík eins og þá var siður og kom svo inn í 2. bekk í MA. „Við vorum tveir húsvískir busar í 2-X“ eins og Þorgeir sjálfur orðar það.

Hvað er eftirminnilegast við árin í MA?

Tvö líf; heimavistarlífið og félagslífið. Ég var á vistinni öll þrjú árin og það breytti manni held ég ansi mikið, nábýlið við jafnaldra og enga aðra, og þessi hæfilega blanda af frelsi og húsaga. Síðasta veturinn var ég með einsmannsherbergi með prívat-baðherbergi, en þá voru þrjú svoleiðis í boði. Þar starfrækti ég hálfgert kaffihús fyrir vinahópinn, og hafði opið fram á nótt meðan eftirspurn leyfði.

Eftirminnileg vökunótt er til dæmis í vorprófum þetta síðasta ár þar sem ég átti að vera að lesa veðurfræði en sat þess í stað með æskuvini mínum, vopnaður gítar og bítlalagabók og við sungum okkur í gegnum hana og þýddum textana jafnóðum. Vond hugmynd, vondur kveðskapur en góð minning.

Veturinn áður en ég kom í skólann tók ég leiklistarbakteríuna all-hastarlega svo starfsemi LMA og iðja henni tengd hafði algeran forgang umfram námið þessi ár. Gríðargóður skóli. Af því sem fram fór í kennslustundum er enginn jafn-eftirminnilegur og Sigurður Bjarklind, sem kenndi mér efnafræði með miklum og stundum nokkuð anarkískum tilþrifum. Öllu yfirvegaðri var Ásmundur Jónsson enskukennari, sem er mér engu að síður álíka hugstæður.

Hefurðu einhver heillaráð til nemenda MA í dag?

Munið að allt sem gerist á menntaskólaárunum er lærdómur. Það er allt þroskandi, það opnar leiðir og býr til möguleika. Námið, samveran, vináttan, félagslífið, tímasóunin, fíflagangurinn.

Við þökkum Þorgeiri fyrir minningarbrot og góð ráð.