Nemendur ræddu við foreldra, ömmur og afa um eftirminnilegar bækur
Nemendur ræddu við foreldra, ömmur og afa um eftirminnilegar bækur

Nemendur í menningarlæsi lesa þessa dagana bækur sem innihalda sannar frásagnir af mönnum og málefnum. Rúmlega hundrað kátir krakkar völdu sér bók í upphafi annar þar sem margir nutu aðstoðar sér eldri og reyndari lestrarhesta við valið. Þannig fengu nemendur fyrirmæli um að kanna eins og kostur var, hjá foreldrum, ömmum og öfum hvaða sannsögulegar bækur væru þeim eftirminnilegar.

Gaman er að taka saman og rýna í listann yfir ævisögur, ferðasögur og aðrar sannar sögur sem hafa haft áhrif á mæður og feður, ömmur og afa nemenda í áfanganum. Hér skal áréttað að ekki var um formlega könnun að ræða heldur byggir samantektin á verkefnum nemenda og því meira hugsuð í afþreyingarskyni. Eins og gefur að skilja skipta bækurnar tugum sem nemendur skráðu og fjölbreytnin því mikil eftir því. Langflestir titlar voru nefndir til sögunnar einu sinni. Nokkrir titlar fengu fleiri „atkvæði“ og þar skera fjórir sig úr.

Bók Yeonmi Park, Með lífið að veði og bækur Óttars Sveinssonar í bókaflokknum Útkall voru oftast nefndar. Athygli vekur að atkvæðin skiptust svo gott sem alveg eftir kynjum – Með lífið að veði var að mestu bundin við mömmur á meðan pabbar nefndu Útkall. Bækurnar Fátækt fólk eftir Tryggva Emilsson og bók Gerðar Kristnýjar, Myndin af pabba fylgdu fast á eftir hvað atkvæðafjölda varðar.

Aðrar bækur sem snert hafa taugar eldri kynslóða og nefndar voru oftar en einu sinni eru m.a. Nóttin sem öllu breytti, Íslendingasögurnar, Gísli á Uppsölum, Ellert, Hornauga, Í verum, Jón Páll, Eyðimerkurblómið, Ekki gleyma mér, Tvísaga og Dagbók Önnu Frank. Af öðrum bókum sem komust á blað má nefna Elly, Geðveikt með köflum, Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur, Harmleikur í Héðinsfirði, Býr Íslendingur hér, Ísafold, Verðandi, Hemmi Gunn, Baráttan um brauðið, Ég skrifaði mig inn í tugthúsið, Yfir farinn veg með Bobby Fischer, Síðasta stúlkan, Aðeins eitt barn og Konan í dalnum og dæturnar sjö.