Vilhjálmur Bergmann ræðir við nemendur
Vilhjálmur Bergmann ræðir við nemendur

Næstkomandi fimmtudag, á námsmatsdegi, er fyrirhuguð leikhúsferð hjá sviðslistabraut MA, kjörnámsbraut í tónlist og þriðja árs nemum á mála- og menningarbraut. Hópurinn leggur af stað að morgni og mun skoða alla króka og kima í Þjóðleikhúsinu sama dag. Um kvöldið sjá svo nemendur uppfærslu leikhússins á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare nokkurn.

Til að undirbúa hópinn sem best kíkti góðvinur skólans Vilhjálmur Bergmann frá Menningarfélagi Akureyrar við í nýliðinni viku og ræddi við krakkana um þetta stórvirki leikbókmenntanna. Villi fræddi nemendur um sögu verksins, söguþráð, ólíkar þýðingar verksins á íslensku og við hverju nemendur mættu búast í Þjóðleikhúsinu. Villi svaraði líka spurningum um leikritið og ólíkar uppfærslur í gegnum árin. Hann lagði línur varðandi hverju nemendur ættu sérstaklega að fylgjast með og brýndi sitt fólk að vera athugult og gagnrýnið. Það er afar dýrmætt að fá liðsinni Villa sem kenndi ensku um árabil í MA. Við þökkum þessum óþrjótandi viskubrunni fyrir að heimsækja okkur og glæða námið lífi í vikulokin.

Hildur Hauksdóttir.