Handhafar Jafnvægisvogarinnar 2023 ásamt Elizu Reid sem afhenti viðurkenningarnar. Mynd: FKA - Félag…
Handhafar Jafnvægisvogarinnar 2023 ásamt Elizu Reid sem afhenti viðurkenningarnar. Mynd: FKA - Félag kvenna í atvinnulífinu.

Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar, Við töpum öll á einsleitninni - Jafnrétti er ákvörðun, sem var haldin í dag, 12. október, voru  afhentar viðurkenningar Jafnvægisvogarinnar, hreyfiafls FKA – Félags kvenna í atvinnulífinu, til 56 fyrirtækja, 11 sveitarfélaga og 22 opinberra aðila, sjá hér.  Menntaskólinn á Akureyri er ein þeirra stofnana sem hlaut þessa viðurkenningu. 

Jafnvægisvogina fá þau fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sem hafa náð að jafna kynjahlutfall í framkvæmdastjórnum. Að þessari viðurkenningu, sem Eliza Reid afhenti í dag, standa auk FKA forsætisráðuneytið, Creditinfo, Deloitte, PiparTBWA, Ríkisútvarpið, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Sjóvá.

Markmið Jafnvægisvogar um 40/60 kynjahlutfall í efsta stjórnendalagi var haft til hliðsjónar við mat á þeim sem hlutu viðurkenninguna.

Þátttakendur í Jafnvægisvoginni eru 239 talsins.

Jafnvægisvogin heldur úti mælaborði með tölfræðilegum upplýsingum um jafnrétti. Þar koma fram helstu upplýsingar um stöðu kynjanna í íslensku atvinnulífi, m.a. kynjahlutföll stofnenda fyrirtækja, framkvæmdastjóra og stjórna.