Nú eru réttur mánuður þar til leikfélag skólans, LMA, frumsýnir Gosa. Leiksýning sem þessi er svo sannarlega ekki hrist fram úr ermunum heldur er langt ferli að baki. Stjórn leikfélagsins hóf undirbúning strax sl. sumar við að velja leikverk og fljótlega upp úr því var farið að huga að leikstjóra. LMA var ekkert að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur og réð Mörtu Nordal leikhússtjóra sem leikstjóra og Þorvald Bjarna Þorvaldsson tónlistarstjóra til að stýra tónlistinni en hann samdi einmitt tónlistina fyrir Gosa.

Á haustönn voru leik-, söng-, hljómsveitar- og dansprufur og einnig valið í teymin fimm sem vinna á bakvið tjöldin. Strax í byrjun vorannar hófust svo æfingar sem standa yfir alla virka daga frá því að skóla lýkur og fram á kvöld þannig að það er mikið að gera hjá leik- og danshópnum. Alls eru það 80 - 90 manns sem koma að sýningunni og þar af eru 22 á sviði, 10 í leikhóp og 12 í danshóp.  Æfingar fara fram í Fjósinu, íþróttahúsi skólans, en síðustu tvær vikurnar fyrir frumsýningu verður æft í Hofi.

 Frumsýningin er þann 8. mars, miðasala er á mak.is og tix.is. Og það er gaman að segja frá því að leikfélagið býður 9. bekkingum í skólum í nágrenninu á forsýningu 7. mars.