Brunnárhlaup á sér langa sögu
Brunnárhlaup á sér langa sögu

Stór hópur nemenda og starfsfólks tók þátt í árlegu Brunnárhlaupi í dag. Sum hlupu á meðan önnur kusu að ganga. Aðstæður voru góðar, sól og svalur andvari sem var hressandi fyrir móða hlaupagarpa. Eftir góða upphitun undir stjórn Unnars Vilhjálmssonar íþróttakennara var lagt af stað frá Gamla skóla. Hlaupið var suður Þórunnarstræti, niður Miðhúsabraut, norður Aðalstræti og upp Spítalastíg og þaðan aftur heim að skóla. Leiðin er u.þ.b. fjögurra kílómetra löng. Einhver blönduðu göngu og hlaupum saman, tóku á harða sprett þegar svo bar undir en hvíldu þess á milli með léttri göngu. Á nokkrum stöðum voru sérstakir „pepparar“ úr hópi nemenda sem hvöttu þátttakendur áfram með hvatningarorðum og dynjandi tónlist. Öll skiluðu sér í hús að loknu hlaupi og hefðbundið skólastarf hélt áfram. Síðar í vikunni verða veitt verðlaun í nokkrum vel völdum flokkum t.a.m. verða afhent sérstök verðlaun fyrir þátttöku. Brunnárhlaupið á sér langa sögu. Lengi vel var um keppni að ræða milli framhaldsskólanna á Akureyri þar sem keppt var um þrjá bikara. Þá var hlaupið frá Brunná sem er rétt utan við bæinn og endað á Ráðhústorgi. Þó ekki hafi verið um keppni að ræða milli skóla að þessu sinni mátti sjá sum keppa við vini og vinkonur. Hjá hinum sem ekki voru í keppnisham var Brunnárhlaupið kærkomin hreyfing og samverustund undir beru lofti.