Útfjör, sýning LMA, fær góða dóma hjá gagnrýnendum
Útfjör, sýning LMA, fær góða dóma hjá gagnrýnendum

Nokkuð hefur verið ritað um uppfærslu LMA á Útfjöri síðustu daga á hinum ýmsu vefmiðlum. Á vefmiðlinum starafugl.is segir svo um sýninguna:

Sýningin er fagmannleg á allan hátt og hér erum við komin mjög langt frá áhugamannaleikhúsinu með sínum gloppótta leik, óstyrkum söng og vandræðalegum augnablikum. Það var ekki fyrren að sýningunni lauk og ég gekk út og sá aðalleikarana faðma foreldra sína tárvotum augum að ég mundi að þetta voru allt menntaskólanemar.

Á vefmiðlinum vikudagur.is segir meðal annars:

Það er nánast ótrúlegt að ungir menntaskólanemar geti komið fram og sungið af þessu öryggi, því söngurinn jafnast ekki bara á við það sem heyrist á sviðum atvinnuleikhúsanna heldur tekur þeim jafnvel fram. Það er ekki á neinn hallað þó sérstaklega sé minnst á Jónu Margréti sem leikur mið Alison. Flutningur hennar á ástaróðnum til Joan eftir að hún áttar sig á kynhneigð sinni er með því besta sem ég hef séð í íslensku leikhúsi.

Uppselt er á sýningu fimmtudaginn 21. mars en hægt er að tryggja sér miða á sýningar föstudags og laugardags á mak.is. Er þar jafnframt um síðustu sýningarnar að ræða.