MA-kennararnir - og systkinabörnin - Bjarni og Eva
MA-kennararnir - og systkinabörnin - Bjarni og Eva

Eva Harðardóttir og Bjarni Jónasson kennarar við Menntaskólann á Akureyri hlutu á dögunum veglegan styrk úr Þróunarsjóði námsgagna fyrir þróun á námsefni um alþjóðlega borgaravitund á grunni fjölmenningar. Eva og Bjarni vinna efnið í samstarfi við Gunnar Hersvein rithöfund sem m.a. hefur gefið út bækurnar Heillaspor – gildin okkar og Gæfuspor - gildin í lífinu. Þá stendur bókaútgáfan Angústúra einnig að baki verkefninu en Eva og Bjarni hafa nýtt bækurnar Kona í hvarfpunkti, Glæpur við fæðingu, Sakfelling og Veisla í greninu til kennslu í vetur í áfanganum Lýðræði og mannréttindi. Þessar bækur og mögulega fleiri munu leggja grunn að því námsefni sem nú er í þróun ásamt öðru efni sem styður við og eflir alþjóðlega borgaravitund ungs fólks. Námsefnið er hugsað til notkunar þvert á námsgreinar s.s. félagsfræði, íslensku, jafnréttiskennslu, sögu, heimspeki og fleiri greinar. Efnið verður auk þess sniðið að því að styðja við mikilvæga stefnumótun eins og grunnþætti menntunar og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.