Eymundur Eymundsson í tíma hjá 1. bekk
Eymundur Eymundsson í tíma hjá 1. bekk

Undanfarna viku hefur Eymundur Eymundsson komið hingað í skólann og frætt nemendur í 1. bekk um það hvernig er að vera með félagsfælni og kvíða. Hann hefur farið í alla bekki í áfanganum Nýnemafræðsla og forvarnir og er þetta hluti af geðrækt sem kennd er í áfanganum. Eymundur segir mikilvægt að sinna forvörnum og geðrækt og upplýsa fólk. Áður hafa nemendur fengið fræðslu um geðraskanir og úrræði sem eru til staðar. Í framhaldi af því fengu þeir svo að hlusta á Eymund lýsa því hvernig hann frá unga aldri hefur þjáðst af kvíða og félagsfælni en í dag lætur hann kvíðann ekki stoppa sig. Eymundur fékk styrk frá Norðurorku til þess að geta farið í skóla og deilt sögu sinni í von um að hún geti orðið öðrum til hjálpar í hans sporum.

Við erum Eymundi afar þakklát fyrir að koma og þökkum honum kærlega fyrir frábæra fræðslu. Nemendur hlustuðu á hann af athygli en hann sýndi m.a. þátt sem birtist í Íslandi í dag fyrr á árinu og fjallaði um líf hans. Undirtektir voru mjög góðar og spurðu nemendur í framhaldi af myndinni spurninga varðandi ýmislegt tengt þessum geðröskunum og hvernig Eymundur fékk aðstoð til að sigrast á sínum kvíða.

Kristín Elva Viðarsdóttir