Arnar Már í færeyska framhaldsskólanum Glasir
Arnar Már í færeyska framhaldsskólanum Glasir

Íslenskukennarinn og rithöfundurinn Arnar Már Arngrímsson hefur verið nokkuð á faraldsfæti undanfarna mánuði, farið til Frakklands, Álandseyja og nú síðast til Færeyja. Á ferðum sínum heimsækir hann m.a. skóla, bæði grunnskóla og framhaldsskóla, segir frá bókum sínum og ritstörfum, íslensku máli og Íslandi. Í Færeyjum hélt hann t.d. kynningu í glænýjum og fjölmennum skóla Glasir, sem varð til þegar þrír framhaldsskólar sameinuðust. Þess má líka geta að Sölvasaga unglings, fyrri bók Arnars Más, er nú sunnudagssagan í útvarpi Færeyinga. 

Arnar Már segir frá: ,,Þegar Sölvasaga unglings hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs í nóvember 2016 hélt höfundur, rétt og svo margir aðrir að bókin yrði sjálfkrafa þýdd á Norðurlandamálin; það væri einhvern veginn tilgangur verðlaunanna. En þannig er það sjaldnast. Bókaútgáfa virðist lúta engum lögmálum og nú er bókin kom út Færeyjum, Frakklandi og Svíþjóð - og Rússlandi á næstu mánuðum. Hver ætli sé samnefnari þessara landa? Það er ómögulegt að segja. En þótt bókin hafi ekki fengið að flæða yfir múralaus landamæri Norðurlandanna var höfundi afhent norrænt vegabréf.

Í MA beit ég það fljótlega í mig að það væri eftirsóknarvert að læra tungumál; helst frönsku og þýsku og undir lok skólans kastaði ég teningi og upp kom Þýskaland. Þar dvaldist ég síðan um þriggja ára skeið og til þess að svíkja ekki frönskuna algerlega bjó ég eitt ár í Lúxemborg. Löngu síðar tók við tveggja ára dvöl á Spáni. Norðurlöndin voru aldrei á ratsjánni; tveir dagar í Köben, þrír dagar í Uppsölum og þá er það upptalið. Ef ég var krafinn um dönsku eða skandinavísku þagði ég þunnu hljóði eða talaði ensku. Það er merkilegt í ljósi þess að grunnurinn var til staðar. Danska var mikil og góð í menntaskólanum og þegar ég lít til baka er býsna merkilegt að við lásum bækur á norsku og sænsku bæði í íslenskunni í háskólanum og kennaranáminu.

Til er land sem heitir Noregur. Árið 2017 heimsótti ég landið í fyrsta sinn. Bókmenntahátíðin í Stavanger í upphafi árs og Lillehammer um sumarið. Annað land heitir Finnland, enn annað Svíþjóð og það eru meira að segja til lönd sem heita Álandseyjar og Færeyjar. Ég gæti talað um þessar heimsóknir í löngu máli. En ég læt duga að segja að þetta er okkar fólk og það er furðulegt að samskiptin og samgangurinn skuli ekki vera meiri."