Nemendur í Krossanesborgum á slóðum setuliðsmanna (efri) og setuliðsmenn í braggahverfi í Lögmannshl…
Nemendur í Krossanesborgum á slóðum setuliðsmanna (efri) og setuliðsmenn í braggahverfi í Lögmannshlíð (neðri)

Nemendur í í áfanganum SAGA2FO05 – saga nýaldar fóru í seinni sögugöngu haustsins í dag í fylgd kennara. Áfanginn spannar tímabil í sögu mannkyns sem kennt er við nútíma, þ.e. tímann frá frönsku byltingunni 1789 fram til líðandi stundar. Í síðustu viku var fetað í fótspor forfeðranna í elsta hluta Akureyrar þar sem 19. öldin var í aðalhlutverki. Í dag var 20. öldin tekin fyrir, n.t.t. hernámsárin.

Gangan hófst í Krossanesborgum. Varnarlína setuliðsins niður við sjó var skeggrædd og nemendur skoðuðu vélbyssuhreiður. Kennarinn fræddi nemendur um gaddavír sem hugsaður var til varnar innrás óvinarins og enn má finna leifar af á svæðinu. Þá var mynd af loftvarnabyssu sem staðsett var í Krossanesborgum á stríðsárunum skoðuð og sögð saga af átökum í háloftunum við Grímsey árið 1943 milli amerískra herflugvéla annars vegar og þýskrar flugvélar hins vegar. Því næst færði hópurinn sig fjær sjávarlínunni og skoðaði sig um á svæðinu þar sem braggarnir stóðu í Krossanesborgum. Þaðan var farið á slóðir breskra setuliðsmanna sem bjuggu í bröggum við Lónsá og skoðaðar jarðvistarleifar þar sem finna má gamlan ruslahaug setuliðsins. Hópurinn gekk því næst í átt að norsku braggahverfi í Lögmannshlíðarhring á malarvegi sem breski herinn lagði áður en haldið var til baka aftur í Krossanesborgir.

Í göngunni höfðu nemendur gott útsýni yfir Hlíðarfjall þar sem breskir og bandarískir hermenn úr fyrrnefndum braggahverfum fóru reglulega í æfingabúðir á stríðsárunum undir leiðsögn norskrar skíðaherdeildar. Í lok göngunnar fengu nemendur að handleika muni úr fórum breskra, bandarískra og norskra setuliðsmanna sem fundist hafa í æfingabúðum þeirra í fjallinu undanfarin ár. Myndir frá sögugöngunni í dag og örlítið eldri myndir frá sömu slóðum má finna á facebook-síðu skólans.