Fiskidagur í MA
Fiskidagur í MA

Þessa dagana standa yfir svokallaðir fiskidagar í nátturulæsinu í fyrsta bekk. Þemað er sjávarútvegurinn vítt og breitt. Farið er í sögu sjávarútvegs, hugtök og heiti, stöðu hans í dag og ýmsa þætti í menningu okkar sem tengjast veiði og útgerð. Þannig læra nemendur nokkur sjómannalög, læra að þekkja ýmsar fisktegundir, fræðast um mismunandi fiskiskip og veiðarfæri og þar fram eftir götunum. En alltaf er markmiðið að nemendur fái eitthvað áþreifanlegt að fást við og því er fastur liður að setja upp lítið frystihús í því rými Menntaskólans sem kallað er Gímaldið. Þar hafa nú allir fyrstu bekkir skólans komið við í vetur og flakað fisk.

Nemendur eru látnir safna ýmsum upplýsingum á meðan flökun stendur, eins tegund og þyngd fisksins, þyngd flakanna fyrir og eftir roðflettingu og hvaða tæki voru notuð við verkið. Nemendur skila skýrslum og keppa sín á milli um bestu nýtinguna.

Myndirnar sem hér fylgja eru frá fiskidögunum fyrir og eftir áramót. Smellið á Facebook-merkið í horninu á myndayfirlitinu til að opna það í Facebook.