Árni Thor Theodorsson og Birna Pétursdóttir hjá Flugu hugmyndahúsi heimsóttu nemendur í valáfanganum…
Árni Thor Theodorsson og Birna Pétursdóttir hjá Flugu hugmyndahúsi heimsóttu nemendur í valáfanganum Upplifun og sköpun. Með þeim á myndinni er sonur þeirra Theódór.

Valáfanginn Upplifun og sköpun er kenndur á haustönn í MA. Hann byggir á nýrri hugmynd bæði hvað varðar innihald og útfærslu. Nemendur velja efni til að vinna með þar sem 5000 ár sögulegs tíma eru undir. Verkefnin eru unnin með þrenns konar hætti. Að þeim loknum verður afrakstri vinnunnar miðlað áfram til samnemenda og kennara, í einhverjum tilfellum út fyrir skólann þ.e. til almennings. Miðlun felst í ritun, hlaðvarpi og myndbandi. Kennarar í áfanganum eru Björn Vigfússon og Brynjar Karl Óttarsson.

Nemendur í áfanganum fengu góða heimsókn í gær. Þau Árni Thor Theodorsson og Birna Pétursdóttir frá Flugu hugmyndahúsi litu við og spjölluðu við krakkana. Þau gáfu krökkunum góð ráð varðandi efnistök, tæknimál og fleira er snýr að sköpun og miðlun verkefna á hljóð- og myndformi. Við þökkum þeim Árna og Birnu fyrir innlitið og aðstoðina. Hver veit nema efnilegt þáttagerðafólk leynist í nemendahópnum?