Forinnritun er hafin í MA
Forinnritun er hafin í MA

Forinnritun nemenda í 10. bekk hefst 9. mars og stendur til 13. apríl. Lokainnritun nýnema er frá 6. maí til 10. júní.  Innritun eldri nemenda er frá 6. apríl til 31. maí.

Athygli er vakin á breytingum á innritun 10. bekkinga sem stefna á náttúruvísindanám. Næsta haust innritast þeir allir á náttúrufræðibraut en velja á milli náttúrufræðibrautar, raungreinabrautar og heilbrigðisbrautar áður en þeir fara í 2. bekk. Þetta fyrirkomulag er nýtt af nálinni og kemur í kjölfarið á því að í vetur hafa fagstjórar í stærðfræði og raungreinum verið að endurskoða nám á þessum brautum og unnið að undirbúningi heilbrigðisbrautar. Nám á brautinni er sérstaklega hugsað fyrir nemendur sem stefna á háskólanám í heilbrigðisgrein.

Einnig er vakin athygli á nýrri námsleið sem er í boði fyrir nemendur í 10. bekk, kjörnámsbraut með áherslu á sviðslistir. Brautin er unnin í náinni samvinnu við Menningarfélag Akureyrar og er ætlað að veita nemendum innsýn í töfraheima sviðslistanna. Auk sviðslistaáherslunnar er áhersla lögð á breiða almenna menntun sem veitir góðan grunn fyrir líf og starf og áframhaldandi nám.

 Nánari upplýsingar um námið í skólanum er að finna á heimasíðu skólans.

Nemendur sem hafa hug á því að sækja um strax eftir 9. bekk (hraðlína) geta kynnt sér málið hér.