- Skólinn
- Skólinn og starfið
- Fólk og félög
- Sýn, stefnur og mat
- Hús skólans
- Námið
- Þjónusta
Við grömsum í vínylplötusafni skólans á föstudögum til jóla. Við rifjum upp vel valdar íslenskar safnskífur sem plötusnúðar TóMA þeyttu á dansiböllunum í Möðruvallakjallara á níunda áratugnum og tengjum kynslóðir í MA saman með því að setja plöturnar undir nálina alla föstudagsmorgna.
Safnplatan Bandalög kom út í júní 1989 og Bandalög 2 úrvalsdeildin ári síðar. Steinar gaf út. Á plötunum er eingöngu að finna íslensk lög með íslenskum flytjendum. Plöturnar nutu mikilla vinsælda og komust báðar í efsta sæti á listum yfir mest seldu plöturnar sumrin 1989 og 1990. Svo vinsæl voru Bandalögin hin fyrri að þau sátu sem fastast í toppsæti DV-listans frá júní fram í september. Rúmlega 5000 eintök seldust. Seinni plötunnar verður kannski helst minnst fyrir þær sakir að vera í tiltölulega fámennum hópi vínylplatna sem komu einnig út á geisladiskum og snældum (kasettum). Gamli og nýi tíminn mættust í Bandalögum 2.
Ný stjórn TóMA tók til starfa í ársbyrjun 1989. Nýkjörinn formaður skrifaði grein sem birtist í vorútgáfu Munins þetta sama ár. Í greininni, sem ber yfirskriftina TÓMA, segir hann mikla vinnu vera framundan hjá nýrri stjórn þar sem „vegur og virðing TóMA hefur farið mjög hrakandi hin síðari ár“. Greinarhöfundur greinir frá áætlunum hinnar nýju stjórnar til að taka á vandanum og hann gerir plötusafn TóMA að umtalsefni. Formaður Atli Örvarsson skrifar svo:
Við viljum byrja á að hleypa að fleiri tegundum tónlistar en eingöngu poppi og rokki. Þetta þýðir þó alls ekki að TóMA eigi að breytast í einhvern „menningarsnobbklúbb“ þar sem svoleiðis tónlist verður útilokuð. Öðru nær. Hinsvegar viljum við reyna að forðast mikla „taptónleika“ eins og þá sem hafa tíðkast undanfarið [...] Þá er ærin stæða til að vekja athygli tónlistarskólafólks og allra annarra TóMAfélaga á hinu flennistóra klassíska plötusafni sem félagið á í TóMArúminu [...] Fleira er á döfinni, hefur að minnsta kosti verið rætt. Menn hafa rætt um að halda vísnakvöld, plötu- og myndbandakynningar, tónleika akureyrskra popphljómsveita o.fl. Það er einlæg ósk okkar að alir þeir sem áhuga hafa á þessu, til dæmis að taka þátt í vísnakvöldi, þeir sem eiga plötur og/eða myndbönd með uppáhaldshljómsveitunum sínum og langar til að kynna þær o.s.frv. - eða hafa tillögur um fleiri atriði sem TóMA ætti að gangast fyrir, þeir hafi samband við okkur í stjórninni, því hvað sem öðru líður má segja að hryggjarstykkið í áætlunum okkar sé að nýta betur þá krafta sem er að finna innan skólans, eða að minnsta kosti hérna norðan heiða.
Lögin á Bandalög:
1. Sálin hans Jóns míns – 100.000 volt
2. Greifarnir – Strákarnir í götunni
3. Stjórnin – Ég finn það nú
4. Todmobile – Stelpurokk
5. Ný Dönsk –Vígmundur
6. Jójó – Stúlkan
7. Bítlavinafélagið – Mynd í huga mér
8. Greifarnir – Dag eftir dag
9. Bítlavinafélagið – Danska lagið
10. Sú Ellen – Leyndarmál
11. Sálin hans Jóns míns – Getur verið?
12. Stjórnin – Ég flýg
13. Ný Dönsk – Ég vil vera ég
14. Possibillies – Talaðu
Lögin á Bandalög 2:
1. Bubbi Morthens – Sú sem aldrei sefur
2. Sálin hans Jóns míns – Ekki
3. Ný Dönsk – Nostradamus
4. Todmobile(1) – Acracadabra
5. Friðrik Karlsson – Grasrótarblús
6. Sálin hans Jóns míns – Ég er á kafi
7. Todmobile(2) – Brúðkaupsdansinn
8. Loðin rotta – Blekkingin
9. Karl Örvarsson – 1700 vindstig
10. Galíleó – Ég vil fara í frí