- Skólinn
- Skólinn og starfið
 - Fólk og félög
 - Sýn, stefnur og mat
 - Hús skólans
 
 - Námið
 - Þjónusta
 
Við grömsum í vínylplötusafni skólans á föstudögum til jóla. Við rifjum upp vel valdar íslenskar safnskífur sem plötusnúðar TóMA þeyttu á dansiböllunum í Möðruvallakjallara á níunda áratugnum og tengjum kynslóðir í MA saman með því að setja plöturnar undir nálina alla föstudagsmorgna.
Fyrsta vínylplatan sem við veljum úr safni TóMA er safnplatan Sprengiefni. Platan inniheldur 14 lög með jafnmörgum flytjendum af átta þjóðernum. Hljómplötuútgáfan Steinar hf gaf út. Ernst Backman hannaði umslag plötunnar.
Fyrstu fréttir af útgáfu Sprengiefnis birtust í Morgunblaðinu 19. nóvember 1982 undir fyrirsögninni „Tvær fyrsta flokks safnplötur að koma“. Fyrir lok mánaðarins var platan komin í þriðja sæti á vinsældarlista Karnabæjar. Kraftur Sprengiefnisins var mikill, platan gerði sig líklega til að velta Í mynd með hljómsveitinni EGÓ úr sessi sem vinsælasta hljómplatan á Íslandi á aðventu 1982. Í byrjun desember birti DV lista yfir vinsælustu plötur landsins. EGÓ var í toppsætinu, Sprengiefni fylgdi fast á eftir í öðru sæti. „Þrátt fyrir sprengiefni og önnur vopn bítur ekkert á Egóið“ skrifaði blaðamaður DV.
Auglýsingar í dagblöðunum í aðdraganda jóla ýttu enn frekar undir vinsældir Sprengiefnisins. Plötudómar og óvænt kynning á safnskífunni á skemmtistaðnum Hollywood í Reykjavík virðist hafa gert sitt gagn því þegar DV birti nýjan vinsældarlista þann 10. desember höfðu Sprengiefni og EGÓ haft sætaskipti. „Sprengiefni tætti sig upp á Íslandstoppinn“ eins og sagði í umfjöllun DV. En það er kalt á toppnum. Viku fyrir jól mátti kaupa Sprengiefni með 10% afslætti og í ársbyrjun 1983 var boðið upp á Sprengiefni á 199 krónur á hinni „stórkostlegu, árlegu hljómplötu- og kassettuútsölu Steinars í Húsgagnahöllinni Bíldshöfða“. Um svipað leyti var snældan föl fyrir litlar 99 krónur á kasettumarkaði Karnabæjar. Nýjabrumið var horfið. Stjörnum prýtt Sprengiefni sem hafði komið með hvelli, hvarf nú smám saman eins og reykur af vinsældarlistum. Sannkallað stjörnuhrap.
En hvenær fjárfesti TóMA í Sprengiefni? Ekki er gott að segja til um það. Líklegt er þó að Sprengiefnið hafi fengið hluta af þeim rúmlega sjö hundruð nemendum sem skráðir voru í nám við MA veturinn 1982-83 til að dilla sér á dansgólfinu í Möðruvallakjallara. Umslagið geymir nokkur lög af merkimiðum með merkingum eins og S11, Disco M.A., Diskótek og Hljómbúr M.A. Ástand skífunnar er nokkuð gott. Nálin hoppar á einum stað í einu af þekktari lögum plötunnar, sarghljóð er í lágmarki og rispur fáar sem gæti bent til varfærnislegrar meðhöndlunar plötusnúðanna. Já, vissara er að fara að öllu með gát þegar Sprengiefni er annars vegar.
Við skulum taka nokkur lög á plötunni og greina. Hvaða lag var vinsælasta danslagið á Sprengiefni? Við veðjum á Der Kommissar með hinum austuríska Johann Hans Hölzel, betur þekktum sem Falco. Hann hefur án nokkurs vafa tryllt lýðinn í Möðruvallakjallara með sínu grípandi gítarriffi og trommutakti. Alles klar, Herr Kommissar. En ballaðan? Fyrsta lag á hlið 2, Happy Talk, gamalt söngleikjalag frá 1949 í nýjum búningi hins skrautlega Captain Sensible, er gott vangalag fyrir suma og pissupásulag fyrir aðra. Svo sannarlega lag sem dregur fram bros. Gleymda lagið? Caught Up in You með amerísku rokksveitinni 38 Special. Lag sem margir kannast við en þó líklega enn fleiri sem tengja hvorki við nafnið á laginu né hljómsveitinni. Þá er rétt að minnast á fyrsta lag á hlið 1, Who Can It Be Now með áströlsku sveitinni Men at Work. Lag sem stenst tímans tönn. Seiðandi saxófónn og einstök rödd Colin Hay tryggja spilun um ókomna tíð. Niðurstaða greiningardeildar: Sprengiefni innihélt nógu mikið púður til að halda uppi stuðinu í Möðruvallakjallara þrátt fyrir fýlubombur inn á milli.
Að lokum er rétt að birta lagalista plötunnar fyrir þau ykkar sem viljið sprengja þakið af húsinu heima.
1. Men at work – Who can it be now
2. Eddie Money – Think I’m in love
3. Cheap Trick – If you want my love
4. Clocks – She looks a lot like you
5. Third World – Try jah love
6. Time Bandits – Live it up
7. Sting – Spread a little Happiness
8. Captain Sensible – Happy Talk
9. Falco – Der Kommissar
10. Adam Ant – Goody two shoes
11. Spliff – Carbonara
12. 38 Special – Caught up in you
13. Þú og ég – Tonight
14. Elkie Brooks – Nights in white Satin