Þetta er náttúrulega bilun & Við suðumark
Þetta er náttúrulega bilun & Við suðumark

Við grömsum í vínylplötusafni skólans á föstudögum til jóla. Við rifjum upp vel valdar íslenskar safnskífur sem plötusnúðar TóMA þeyttu á dansiböllunum í Möðruvallakjallara á níunda áratugnum og tengjum kynslóðir í MA saman með því að setja plöturnar undir nálina alla föstudagsmorgna.

Föstudagsplöturnar eru tvær að þessu sinni. Þetta er náttúrulega bilun frá 1986 og Við suðumark frá 1982. Á biluninni eru fjórtán lög, Spor gaf út og hönnum umslags var í höndum Sveinbjörns Gunnarssonar. Á suðumarkinu eru sextán lög , Fálkinn gaf út en umslagið hannaði Ernst J. Bachman.

Þetta er náttúrulega bilun kom út í septemberbyrjun árið 1986. Eins og gjarnan með safnplötur á þessum árum fór þessi beint inn á topp 10 lista DV yfir vinsælustu plötur landsins, n.t.t. í annað sæti. Hún átti aðeins eftir að skáka Reykjavíkurflugum Gunnars Þórðarsonar sem hún gerði viku síðar þegar plöturnar höfðu sætaskipti. Bilunin sat samtals fimm vikur á toppnum, geri aðrar plötur betur. Við suðumark náði aldrei toppsæti listans, komst hæst í 4. sæti í janúarlok 1983.

Eintök af umræddum safnplötum komu í ljós þegar rykfallinn pappakassi með gömlum vínylplötum var opnaður í myrkvaðri kompu í MA. Þar höfðu þau legið hlið við hlið, áratugum saman, innan um aðrar vínylplötur sem rekja má allt aftur til sjötta áratugarins. Bæði voru þau í ágætu ásigkomulagi, í plastvösum og merkt Diskóteki MA.

Að venju tökum við nokkur lög á föstudagsplötu vikunnar út fyrir sviga og rýnum í þau og flytjendur þeirra. Að þessu sinni skoðum við samtímafrásögn blaðamanna, annars vegar blaðamanns DV frá september 1986 og hins vegar plötugagnrýnanda Tímans frá desember 1982.

Ef við rennum í snarheitum yfir plötuna þá sóma fyrstu þrjú lögin sér vel, So Macho að vísu á síðari hluta vinsældaskeiðsins, We Don’t Have To er í mikilli sókn en Boris Gardiner farinn að dala aðeins. Lagið með Söndru skil ég ómögulega, það hlýtur að hafa villst inn á plötuna fyrir einhvern misskilning. Bítlavinafélagið er liðin tíð og Phil Fearon sló aldrei í gegn hérlendis og gerir vart úr þessu. Og Fimmtán ára á föstu er fallið. Sama er að segja um Hestinn en Calling all The Heroes náði aldrei fótfestu hérna. Human er nokkuð vinsælt en Samantha Fox á enn eftir að ná eyrum Íslendinga. Shout er gleymt og grafið fyrir löngu og Útihátíðin og Kjaftakerlingin eru fallnar stjörnur.

Þá hefur Fálkinn hf. sent frá sér sína bestu safnplötu fyrr og síðar. Nefnist platan. „Við suðumark" og er það réttnefni því að platan fær reykinn til að rjúka út um eyrun á öllum sönnum aðdáendum rokks og nýrómantíkur. Það er heilt stjörnugallerí sem kemur fram á þessari plötu og upptalning á þeim nöfnum væri e.t.v. réttasti mælikvarðinn á gæðin. Plássins vegna verða aðeins taldir upp fáir útvaldir og þeir eru t.a.m. Dexy’s midnight runners, ein allra besta hljómsveit þessa árs með „Come on Eileen”, eitt allra besta lag þessa árs, Steve Miller Band með „Abracadabra“ sem er slagari ársins, Trio með Óla Jó lagið góðkunna, Grace Jones með lag af sinni hörkugóðu plötu, ABC og Duran Duran til að hafa nýrómantíkina á sínum stað og Elton John þannig að Watford verði ekki spældir. Sem sagt alveg meiriháttar og utangáttar.

Lagalisti bilunarinnar:

1. Sinitta – So Macho
2. Jermaine Stewart – We don’t have to…
3. Boris Gardiner – I want to wake up with you
4. Sandra – Innocent love
5. Bítlavinafélagið – Þrisvar í viku
6. Phil Fearon – I can prove it
7. Pétur og Bjartmar – Fimmtán ára á föstu
8. Skriðjöklar – Hesturinn
9. It bites – Calling all the heroes
10. Human League – Human
11. Samantha Fox – Touch me (I Want your body)
12. Lulu – Shout
13. Greifarnir – Útihátíð
14. Bjarni Tryggva – Kjaftakerling

Lagalisti suðumarksins:

1. Steve Miller Band – Abracadabra
2. Dr. Hook – Baby Makes Her Blue Jeans Talk
3. Motels – Only The Lonely
4. Talk Talk – Talk Talk
5. Trio – Da Da Da
6. Grace Jones – I´ve Seen That Face Before
7. Soft Cell – Say Hello Wave Goodbye
8. Ragnhildur Gísladóttir – Draumaprinsinn
9. Naked Eyes – Always Something Out There To Remind Me
10. Björgvin Halldórsson – Save It For Me
11. Dexys Midnight Runners – Come On Eileen
12. ABC – The Look Of Love
13. Duran Duran – Save A Prayer
14. Genesis – Paperlate
15. Elton John – Blue Eyes
16. Classix Nouveaux – The End Or The Beginning