Tvær í takinu frá árinu 1984 í eigu TóMA
Tvær í takinu frá árinu 1984 í eigu TóMA

Við grömsum í vínylplötusafni skólans á föstudögum til jóla. Við rifjum upp vel valdar íslenskar safnskífur sem plötusnúðar TóMA þeyttu á dansiböllunum í Möðruvallakjallara á níunda áratugnum og tengjum kynslóðir í MA saman með því að setja plöturnar undir nálina alla föstudagsmorgna.

Föstudagsplatan úr safni TóMA þessa vikuna er safnplatan Tvær í takinu. Platan er tvöföld en í sitt hvoru umslaginu, grænu og bleiku. „Græna platan“ geymir fjórtán erlenda slagara á hliðum 1 og 2, „bleika platan“ inniheldur tólf dægurlög á hliðum 3 og 4 með íslenskum flytjendum eða tónlistarmönnum með tengingu við Ísland. Spor, sem var á vegum hljómplötuútgáfunnar Steina, gaf út. Um hönnun sá Sveinbjörn Gunnarsson.

Tvær í takinu kom út 15. febrúar 1984. Ekki liðu nema tveir dagar þar til platan var komin á topp 10 lista DV yfir vinsælustu plötur vikunnar. Viku síðar var hún komin á toppinn og var þá „langsöluhæsta plata vikunnar“. Enn fremur sagði í umfjöllun um vinsældalistann þann 24. febrúar að „langt er síðan plata hefur selst í jafnmiklum mæli á einni viku“.

Fáar safnplötur vöktu jafnmikla athygli á áttunda og níunda áratugnum og Tvær í takinu. Helgast það af því að í sömu viku og hún komst á toppinn á lista DV, bárust fregnir af lögbanni sem sett hafði verið við frekari dreifingu og sölu á bleiku plötunni. Lögbannið var sett að kröfu Magnúsar Þórs Jónssonar, Megasar þar sem hann taldi ekki heimild fyrir endurútgáfu á lagi sínu og texta, Fatlafól sem finna má á plötunni. Fatlafól hafði komið út ári áður, á plötu Bubba Morthens Fingraför sem eins og Tvær í takinu var gefin út af Steinum hf. Lögbannið tók gildi eftir að Megas lagði fram tryggingu þar að lútandi. Í millitíðinni rauk safnplatan út úr hljómplötuverslunum sem tryggði henni áfram fyrsta sætið á lista DV. Við löggildinguna stöðvaðist framleiðsla á bleiku plötunni og græna platan var í kjölfarið seld ein og sér í verslunum undir nafninu Í takinu (sjá mynd). Sala á henni gekk svo vel að Tvær í takinu / Í takinu hélt toppsæti listans þriðju vikuna í röð og sat á listanum í nokkrar vikur til viðbótar.

Af lögbanninu er það að segja að málið fór fyrir dómstóla þar sem dómur var kveðinn upp í desember 1984. Er skemmst frá því að segja að Megas vann málið gegn Steinum hf. Lögbannið var staðfest, Steinar hf. dæmt til að greiða Megasi miskabætur og hann sýknaður af mótkröfum útgefandans. Um tímamótamál var að ræða þar sem útgefendur höfðu fram að þessu álitið að þeim væri heimilt að gefa út lag sem hafði áður komið út á þeirra vegum án þess að sérstakt leyfi höfundarins lægi fyrir. Niðurstaða í Máli Megasar gegn Steinum vegna útgáfu safnplötunnar Tvær í takinu sýndi að svo var ekki.

Útgefandinn fékk mikla gagnrýni frá plötugagnrýnendum fyrir meinlegar prentvillur á umslögunum. Þar rekur hver ambagan aðra. Nafn bresku sveitarinnar China Crisis er skrifað China Crises og röð laga á hlið fjögur á bleiku plötunni er önnur en kemur fram á bakhlið umslagsins. Versta axarskaftið þó, sem jafnframt skýrir enn frekar gremju Megasar í garð útgefandans, er hvernig höfundarverk hans er stafsett á bakhlið bleika umslagsins. „Fatlað Fól“.

Líklega hefur TóMA eignast plöturnar sínar tvær (í takinu) áður en lögbann Megasar á hendur Steinum komst í hámæli, líkast til á vorönn 1984. Bleika platan og titill grænu plötunnar bendir til þess þ.e. „Tvær í takinu“ en ekki „Í takinu“. Fjórum árum síðar átti Megas eftir að heimsækja MA og gefa skólanum hljómplötu, þó hvorki eintak af safnplötunni Tvær í takinu né Í takinu. Meira um það síðar.

Nánari athugun á eintökunum úr safni skólans leiðir ýmislegt áhugavert í ljós. Svo virðist sem plötusnúður TóMA hafi á einhverjum tímapunkti merkt með penna aftan á græna umslagið hversu fjörug (dansvæn) eða róleg lögin á plötunni eru. Eitthvað sem allir góðir „dídjeiar“ þurfa að hafa á hreinu. Þannig fá lögin Talking in Your Sleep með amerísku rokksveitinni The Romantics og Move Over Darling og Where Is My Man með hinum fjölhæfu söng- og leikkonum Tracey Ullman og Earthu Kitt þrjá krossa. Kannski voru þetta vinsælustu lög plötunnar á diskótekunum í MA vorið 1984. Stór rispa og mikið flökt á nálinni í síðastnefnda laginu sem og athugasemd plötusnúðar við lagatitilinn á umslaginu „líka til á 12 tommu“ festir lagið í sessi sem mest spilaða lag plötunnar að mati undirritaðs (við leit í plötusafni skólans fannst nefnd 12 tommu plata). Rólegri lög á plötunni fá tvo krossa og enn rólegri einn kross. Við titla rólegustu laganna þ.e. ballöðurnar tvær og lokalögin á hliðum 1 og 2, er ritað „rólegt“.

Eitt lag sker sig úr þegar kemur að merkingum plötusnúðarins og svo virðist sem honum hafi reynst erfitt að finna því stað í þessu heimagerða flokkunarkerfi. Við lagið Only You má greina dauft pennafar sem lítur út eins og spurningamerki. Kannski rökrétt í ljósi þess að meðlimir bresku hljómsveitarinnar The Flying Pickets reiða sig eingöngu á raddir og búkslátt og lagið því á nokkuð óræðum stað á listum yfir dansvæn lög. Lagið náði miklum vinsældum, komst í efsta sæti á Íslandi og í Bretlandi og því alvöru áskorun þarna fyrir skífuþeytara TóMA. Minna er um merkingar á bleika umslaginu, aðeins ein við fiðlupopp- og þjóðlagasmellinn Scottish með breska fiðlusnillingnum Graham Smith. „Gott“.

Eins og í síðustu viku birtum við lagalista föstudagssafnplötunnar.

Græna platan:

1. Matthew Wilder – Break my stride
2. The Romantics – Talking in your sleep
3. Paul Young – Love of the common people
4. Joe Fagin – That’s living allright (From Auf Wiedersehen Pet)
5. Tracey Ullman – Move over darling
6. UB-40 – Many rivers to cross
7. Snowy White – Birds of Paradise
8. Eartha Kitt – Where is my man
9. Fiction Factory – (Feels like) heaven
10. Gazebo – I like Chopin
11. The Flying Pickets – Only you
12. Icicle Works – Love is a wonderful colour
13. China Crisis – Wishful thinking
14. Culture Club – Victims

Bleika platan:

1. Mezzoforte – Garden party
2. Bubbi Morthens – Hermaðurinn
3. Björk Guðmundsdóttir – Afi
4. Grýlurnar – Sísí
5. Jóhann Helgason – Talk of the town
6. Jolli og Kóla – Sæl og blessuð
7. Þú og ég – Don’t try to fool me
8. Ego – Fjöllin hafa vakað
9. Bara flokkurinn – A matter of time
10. Bubbi og Megas – Fatlafól
11. Graham Smith – Scottish
12. Laddi – Súperman

Tvö plötuumslög - Tvær í takinu & Í takinu