Hugrún Lilja Pétursdóttir, Sigrún Reem Abed, Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir og Katrín Jónsdóttir sáu um…
Hugrún Lilja Pétursdóttir, Sigrún Reem Abed, Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir og Katrín Jónsdóttir sáu um tónlistarflutning. Skólameistari Jón Már Héðinsson er í bakgrunni, en þetta var síðasta brautskráning hans.

Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 142. sinn í dag 17. júní.

Brautskráningin fór fram í Íþróttahöllinni og var einnig streymt. Hugrún Lilja Pétursdóttir, Jóhanna Rún Snæbjörnsdóttir, Katrín Jónsdóttir og Sigrún Reem Abed sáu um tónlistarflutning við athöfnina.

Alls voru 150 stúdentar brautskráðir.

Dúx skólans er Róbert Tumi Guðmundsson með 9,85 og Óðinn Andrason er semidúx með 9,8.

Listaverkavefur og Meistaravöllur

Skólameistari sagði frá nýjum listaverkavef skólans. Lengi vel gáfu afmælisárgangar listaverk og skólinn á mikið listaverkasafn. Þeim listaverkum er dreift um allan skólann og Tryggvi Gíslason fyrrum skólameistari tók saman tilurðarsögu listaverkanna. Sverrir Páll Erlendsson íslenskukennari merkti öll verkin og hann ásamt Önnu Eyfjörð þjónustustjóra í upplýsingatækni  gengu frá verkunum þannig að nú er hægt að skoða öll verk skólans á listaverkavef skólans á ma.is.

Hann sagði einnig frá því að það hefði lengi verið draumur að koma upp útiíþróttaaðstöðu við skólann og nú er það að orðið að veruleika, vestan við íþróttahúsið er kominn Meistaravöllur. Íþróttakennarar skólans höfðu barist fyrir þessu í mörg ár en það var ekki fyrr en skólameistari fékk Jón Ágúst húsvörð og Steinþór hjá fasteignum ríkisins með sér í lið að skriður komst á málið. Meistaravöllur er upphitaður með gervigrasi, föstum körfum og ýmsum æfingatækjum og einnig  búnaði til að setja upp blak. Þarna eru þrep sem notuð eru sem sæti í útikennslu og eru jafnframt stúka til að fylgjast með íþróttum. Skólasjóður, Minningarsjóður Baldvins Rúnarssonar og stúdentar 1991 (árgangur Ingibjargar Magnúsdóttur íþróttakennara) fjármögnuðu tæki og búnað. Þetta er glæsileg aðstaða sem nýtist skólanum á skólatíma og svo öllum utan skólatíma og hluti af lýðheilsuframlagi skólans til samfélagsins. Nú fyrir 17. júní var skilti sett upp við völlinn og honum formlega gefið nafnið Meistaravöllur.

Starfsmenn heiðraðir

Tveir starfsmenn voru sérstaklega kvaddir við brautskráningu; Björg Friðjónsdóttir ræstitæknir sem hefur nýlega látið af störfum eftir 30 ára starf. Björg gat reyndar ekki verið við brautskráningu en skólameistari hafði áður veitt henni gulluglu skólans. Jón Ágúst Aðalsteinsson húsvörður hættir í vor eftir 40 ára starf við MA. Hann fékk gulluglu skólans við brautskráningu. Skólameistari veitti einnig Sigurlaugu Önnu aðstoðarskólameistara gulluglu skólans í þakklætisskyni fyrir samstarfið.

Skólameistari var einnig kvaddur sérstaklega við brautskráninguna og fékk gjöf frá starfsfólki skólans. Það kom fram að hann hefur brautskráð ríflega þriðjung allra stúdenta MA. Frá upphafi (frá 1930) hafa verið brautskráðir 9193 stúdentar og af þeim hefur Jón Már brautskráð 3102. Í kveðjunni var nefnt að ein ástæðan fyrir farsæld Jóns Más sem skólameistara hefði falist í sambandi hans við nemendur, kannski væri einfaldast að segja að hann hafi borið virðingu fyrir nemendum og tekið skoðanir þeirra og álit gilt. Og það sama má auðvitað segja gagnvart starfsfólki.

Úr ræðu skólameistara:

Í ræðu sinni ræddi skólameistari ýmis atriði; hann fór yfir félagslíf nemenda sem varð kraftmikið á vorönn eftir að samkomutakmörkunum var aflétt. Hann nefndi líka góðan árangur nemenda í MORFÍs, stærðfræðikeppni, þýskuþraut, stuttmyndakeppni í þýsku, forritunarkeppni framhaldsskólanna og efnafræðikeppni og gat þess að í skólanum eru fjölmargir afburðanemendur í ýmsum listgreinum og landsliðsfólk í íþróttum.

Hann ræddi ýmis atriði tengd námi og kennslu, t.d. að kennarar hafa í auknum mæli verið að tileinka sér leiðsagnarkennslu og verkefnamiðað nám. Hugmyndafræði lokaprófa er ekki lengur ríkjandi í MA. En í opinberum könnunum kemur fram að sífellt stækkandi hópur framhaldsskólanema sér lítinn tilgang með námi sínu. Hann velti fyrir sér hvort einn liður til úrbóta væri að taka alla nýnema í viðtal í upphafi skóla eins og gert er með hraðlínunemendur. Það myndi gera skólagönguna meira alvöru, meiri skuldbindingu og þau þróuðust í öflugt námsfólk. ,, Með þessum hætti getum við lagt enn meiri áherslu á spurninguna, sem sprettur fram af forvitni, því við ætlum nemendum okkar að vera spurulir, gagnrýnir og flinkir í öllum samskiptum.“ Hann sagði að lausnin væri fólgin í enn meira samstarfi milli greina og brauta, þannig fengjum við meira samtal og samlegð milli greina og drögum úr álagi, hraða og spennu, á þann hátt verði dýpri sameiginlegur skilningur á að nemendur og kennarar eru samábyrgir fyrir námi. Hann brýndi líka forystu kennara og viðsemjendur þeirra að taka þátt í slíkum breytingum. ,,Hugsið ykkur þegar við brjótum upp hefðbundið form stundatöflu og fimmtudagar gætu orðið hugstormunardagar í MA, þar sem verður stormað þvert á greinar og bekki og sagt frá afrekstri stormsins eftir hádegi á föstudegi. Það er styttra í þessa gleði en ykkur grunar og ég sakna þess að verða ekki með í því.“

 Afmælisárgangar

Það er löng hefð fyrir því að fulltrúar afmælisárganga komi að brautskráningu og flestir þeirra styrkja Uglusjóð, hollvinasjóð MA.

Fulltrúi 60 ára stúdenta var Sveinn Þórarinsson

Fulltrúi 50 ára stúdenta var Ásdís Hafstað

Fulltrúi 40 ára stúdenta er Ólafur Pétur Pálsson

Fulltrúi 25 ára stúdenta var Rebekka Kristín Garðarsdóttir

Fulltrúi 10 ára stúdenta var Sigurgeir Ólafsson

Ávörpin voru sérlega áhugaverð og skemmtileg. Skólameistari sagði að við værum svo lánsöm að MA-stúdentum þykir vænt um skólann sinn og ætlast til að hann sé í fremstu röð. Hann sagði að það væri gott að starfa við stofnun sem fylgja hlýjar hugsanir. 

Ávarp nýstúdenta og orð skólameistara til nýstúdenta:

Elísa Þóreyjardóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta, hún var forseti skólafélagsins Hugins sem stýrði félagslífi nemenda í vetur við nokkuð krefjandi aðstæður, ekki síst framan af vetri.

 Skólameistari kvaddi svo nýstúdentana og þakkaði þeim samstarfið. ,,Nú erum við á sérstökum tímamótum tregablandinnar gleði, kveðjustunda. Maður saknar þess sem skiptir máli, það finn ég þegar þið eruð að fara. Þið nýstúdentar hafið verið að þroskast og mótað mannorð ykkar í samskiptum við aðra nemendur og starfsfólk og mannorðið mun fylgja ykkur eins og skólinn. Ég trúi því að einkunnarorð skólans hafi mótað ykkur og að þið ræktið þau áfram með ykkur og að þið hafið eflt með ykkur kjark til að velja og hafna. Ef þið hugsið ykkur um þá er líf hvers og eins tilraun sem aldrei hefur verið gerð áður. Í þessari tilraun er spurningin mikilvægari en svarið, svarið er breytilegt enda ekki til eitt rétt svar, því það ekki er til ein rétt spurning. Hvert og eitt ykkar leitar að sínum spurningum og notar til þess hugvit sitt og siðvit og lífshamingjan markast af heilindum í þeirri leit.“

Kveðjuorð skólameistara við síðustu brautskráningu hans:

Kæru vinir og samstarfsfólk, ágætu gestir nú sem fyrr hefur mér frekar verið tíðrætt um það sem framundan er, ég ætla ekki að sitja öfugur í hnakknum síðustu ferðina, og mig sundlar við að horfa í kjölsogið ég vil frekar horfa fram á við og ríða á öldufaldinum. Það er samt svo að ég, eins og nemendur, er að kveðja þetta svið, framundan er að takast á við ný verkefni, ný ævintýri. Mér finnst ótrúlegt að það séu 42 ár síðan ég byrjaði sem kennari og 19 ár síðan ég var skipaður skólameistari og við Sigurlaug Anna tókum við. Ég á mörgum margt að þakka, ég þakka skólanum, því hann er lifandi, öllum nemendum á hverjum tíma, það er mikið ríkidæmi að hafa kynnst svo stórum hópi, sama hvert ég fer þá hitti ég mitt fólk. Sem skólameistari hef ég tamið mér að bjóða öllum góðan daginn og það er eftir því tekið hvað nemendur MA eru kurteisir. Ég er svo lánsamur að nemendur hafa treyst mér fyrir gleði og sorg og við höfum reynt að leysa mál á jákvæðan hátt með gagnkvæmri virðingu og trausti.

Ég hef verið ótrúlega lánsamur með samstarfsfólk, sem hefur tekið þátt í að leiða skólann farsællega með trausti og lýðræðislegum vinnubrögðum. Við höfum gefið okkur tíma fyrir samtal og lýðræði og lært að til þess að líða vel með sínu fólki þarf traust og gagnkvæma virðingu, það er ómetanlegt að hafa fengið að vera hluti af slíkum hóp.

Kæru vinir og samstarfsfólk, ágætu gestir eins og ég sagði áðan þá er komið fyrir mér eins og nemendum, að kveðja þetta svið, takast á við ný verkefni, ný ævintýri. Ég er gjarnan spurður eins og nýstúdentar, hvað ætlar þú að gera, ég svara því til að ég ætli að gera það sem ég hef alltaf reynt að gera, njóta lífsins og augnabliksins og vera ástfanginn af henni Rósu minni, ég hef ástríðu fyrir lífinu og þá kemur það til mín eins og það vill.

Athöfninni lauk á því að Skólasöngur Menntaskólans á Akureyri var sunginn.