Í gær var dimissio í MA en þá kveðja nemendur kennara sína síðasta kennsludaginn í MA áður en þeir þreyta síðustu próf sín í skólanum. Að þessu sinni voru óvenju margir bekkir á ferð á vögnum um bæinn enda tvöfaldur árgangur að brautskrást frá skólanum. Þessar ferðir eru tilkynntar lögreglu fyrirfram. Alla jafna er dimissio gleðidagur en stundum er stutt á milli gleði og alvarleika, og slys gera ekki boð á undan sér. Eins og komið hefur fram í fréttum varð slys í einum bekk, en höfuð á stúlku klemmdist þegar hlera á vagninum var lokað. Hún slasaðist alvarlega, en ekki lífshættulega, og gengst undir aðgerð í dag. Áverkar í andliti eru alvarlegir en ekki skaði á höfuðkúpu eða hálsi. Rétt er að taka fram að nemendur voru ekki undir áhrifum áfengis og alls ekki var um glannaskap að ræða.

Hugur alls starfsfólks og nemenda skólans er hjá stúlkunni, fjölskyldu hennar og vinum. Menntaskólinn þakkar lögreglunni og áfallateymi Rauða krossins fyrir fagleg vinnubrögð og aðstoð og nemendum og starfsfólki fyrir samstöðu.

Skólameistari.