Fulltrúar stjórnmálaflokka í Kvosinni í dag
Fulltrúar stjórnmálaflokka í Kvosinni í dag


„Kosið verður til Alþingis í MA í vikunni.“ Vitanlega á fullyrðingin ekki við rök að styðjast þó í henni leynist ofurlítið sannleikskorn. Um svokallaðar skuggakosningar er að ræða þar sem nemendur kjósa sína fulltrúa á Alþingi í aðdraganda alþingiskosninga nú í haust. Er þetta í fjórða skipti sem skuggakosningar fara fram, kosið var samhliða alþingiskosningum 2016 og 2017 og sveitarstjórnarkosningum 2018.

Nemendur stóðu fyrir framboðsfundi og pallborðsumræðum í dag með fulltrúum stjórnmálaflokka sem kynntu stefnumál sín. Vegna fjöldatakmarkana var Kvosin ekki eins þétt setin og í eðlilegu árferði. Viðstaddir fengu þó eitthvað fyrir sinn snúð, innsýn í kosningabaráttu og lifandi og skemmtilegar umræður. Nemendur meta nú frammistöðu frambjóðenda og kjósa sína fulltrúa síðar í vikunni.

Skuggakosningar eru liður í lýðræðisverkefninu #ÉgKýs sem hefur það að markmiði að efla lýðræðisvitund og hvetja ungt fólk til að kjósa eftir upplýstri ákvörðun. Nánar um framtakið hér.