Einar og Tinna með staðfestingu á fyrsta græna skrefinu.
Einar og Tinna með staðfestingu á fyrsta græna skrefinu.

Frá árinu 2014 hafa ríkisstofnanir unnið að grænum skrefum í samvinnu við Umhverfisstofnun. Markmiðið er að hafa rekstur á hverjum stað eins umhverfisvænan og unnt er. Skrefin eru alls fimm og lúta að fjölmörgum þáttum. Ekki er nóg að hugsa um umhverfisvæna kosti við innkaup, flokka ruslið og reyna að sleppa einkabílnum á leið úr og í vinnu. Hvert og eitt smáatriði er skoðað með það fyrir augum að bæta nýtingu og minnka kolefnisspor. 

Menntaskólinn á Akureyri fór á haustmánuðum að huga að grænu skrefunum og á dögunum var fyrsta skrefið uppfyllt. Umhverfisnefnd skólans er þegar byrjuð að vinna að næstu skrefum, fagnar fenginni viðurkenningu en slakar hvergi á klónni við að gera skólann grænni. 

Skólinn hefur líka verið handhafi grænfánans frá því í maí 2009 og hlaut fjórða grænfánann í desember 2020.

Á myndinni eru Einar Sigtryggsson og R. Tinna Tómasdóttir, sem skipa umhverfisnefnd skólans. Þau eru að vonum afar ánægð með fyrsta græna skrefið og telja að skref 2 og 3 bætist við innan skamms.