Stjórn skólafélagsins kynnir félagslífið fyrir grunnskólanemendum
Stjórn skólafélagsins kynnir félagslífið fyrir grunnskólanemendum

Þessar vikurnar velta 10. bekkingar landsins því fyrir sér hvaða námsleið og framhaldsskóla þau ætla að velja. Innritun í framhaldsskólana hefst 25. apríl og lýkur 10. júní. Þetta er stór ákvörðun, sum hafa ákveðið sig fyrir löngu en önnur eru að velta vöngum. Það getur því verið snjallt að heimsækja skólana og kynnast því sem í boði er. 

Fjölmargir skólar komu í heimsókn í MA 22. og 23. mars. Fyrri daginn komu skólar utan Akureyrar: Borgarhólsskóli, Dalvíkurskóli, Hrafnagilsskóli, Höfðaskóli, Grenivíkurskóli, Grunnskólinn Þórshöfn, Reykjahlíðarskóli, Stórutjarnaskóli, Valsársskóli, Þelamerkurskóli og Þingeyjarskóli. Seinni daginn komu skólar á Akureyri: Brekkuskóli, Giljaskóli, Glerárskóli, Lundarskóli, Naustaskóli, Síðuskóli og Oddeyrarskóli.

Nemendur fóru um skólann í hópum, heimsóttu fjórar stöðvar þar sem námsbrautirnar voru kynntar, kjörnámsbraut í sviðslistum og tónlist og mála- og menningarbraut í Gamla skóla, félagsgreinabraut í Kvosinni og náttúrufræðibraut á Möðruvöllum. Á hverri stöð voru nemendur og kennarar sem kynntu brautirnar, spjölluðu við 10. bekkingana og buðu upp á myndbönd, þrautir, blóðþrýstingsmælingar og sýndu ýmislegt áhugavert sem tengjast námsgreinunum. 

Þetta voru einstaklega skemmtilegar heimsóknir og við þökkum 10. bekkingum og kennurum þeirra kærlega fyrir komuna.