Ólöf Pálsdóttir stúdent 1951
Ólöf Pálsdóttir stúdent 1951

Tryggð MA-inga við skólann er óviðjafnanleg, eins og sést þegar þeir hópast hundruðum saman á jubilantahátíðina í júní - þótt reyndar kæmi enginn í ár vegna aðstæðna. Ólöf Pálsdóttir, stúdent 1951, heimsótti gamla skólann sinn í vikunni í Akureyrarferð sinni. Árgangurinn hefur haldið vel saman þótt farið sé að kvarnast úr hópnum og hafa bekkjarsysturnar t.d. hist einu sinni í mánuði í Kringlunni sl. 30 ár. Þau mættu á Stúdentafagnaðinn síðast fyrir níu árum og héldu upp á 60 ára stúdentsafmælið. Ólöf rifjaði upp að á menntaskólaárunum hefðu vinkonurnar, í pilsum og nælonsokkum, gjarnan farið á Hótel Kea eftir skóla og deilt þar saman einni kaffikönnu. Hún hitti nokkra 1. bekkinga hér á ganginum í Gamla skóla og brýndi þá á því að fara vel með sig næstu 70 árin svo þeir gætu heimsótt skólann sinn líkt og hún þegar komið væri að 70 ára stúdentsafmæli. Þetta var skemmtileg heimsókn. Á myndinni er Ólöf á Gamla gangi við skólaspjaldið frá 1950.